Umfjöllun og viðtal: ÍA 3-2 Fram | Skagamenn enn þá á lífi

Sverrir Mar Smárason skrifar
Stuðningsfólk ÍA.
Stuðningsfólk ÍA. Vísir/Vilhelm

ÍA vann 3-2 sigur á Fram í úrslitakeppni neðri hluta Bestu-deildar í dag en skagamenn er nú aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti. 

Skagamenn þurftu nauðsynlega á sigri að halda til þess að vonin um sæti í Bestu deildinni að ári myndi lifa. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið voru að reyna að ná áttum á þungum og blautum Akranesvelli.

Skagamenn áttu fyrsta orðið í leiknum þegar Eyþór Aron Wöhler kom ÍA yfir á 15. mínútu leiksins. Johannes Vall sendi langa sendingu upp og Eyþór vann bæði Hlyn Atla og Orra Gunnarsson í baráttu um boltann, keyrði inn í teig Fram og lagði boltann svo snyrtilega í netið framhjá Ólafi Íshólm í marki Fram.

ÍA var þó ekki lengi í paradís því á 24. mínútu jafnaði Skagamaðurinn Albert Hafsteinsson metin fyrir Fram. Albert verið mikið á bekknum undanfarið en þakkaði traustið í dag með marki gegn uppeldisfélaginu. Fred Saraiva sendi aukaspyrnu inn í vítateig ÍA sem fór af þremur varnarmönnum til Alberts sem lagði boltann í netið og fagnaði innilega.

Á næstu mínútum gerðist lítið annað en það að það fór að hellirigna. Svo á 37. mínútu komst Fram yfir 2-1. Þar var að verki Guðmundur Magnússon með sitt 16. mark í sumar eftir alvöru klaufagang hjá öftustu mönnum ÍA. Almarr Ormarsson reyndi sendingu yfir vörn ÍA sem bæði Aron Bjarki og Árni Marinó ætluðu að reyna við. Aron Bjarki náði snertingu og Árni Marinó missti boltann framhjá sér. Auðvelt mark fyrir Guðmund sem renndi boltanum bara í autt markið.

Skagamenn fengu gott færi rétt fyrir hálfleik þegar Viktor Jónsson átti sendingu fyrir markið sem Almarr skallaði að eigin marki en Ólafur Íshólm varði. Hálfleikstölur 1-2.

Skagamenn gerðu breytingu í hálfleik þegar Ingi Þór Sigurðsson kom inná fyrir Hauk Andra Haraldsson sem meiddist lítillega stuttu áður. Ingi Þór var snöggur að minna á sig því hann jafnaði fyrir ÍA á 56. mínútu. Fram hafði fengið tvö horn í röð og eftir það síðara vann Benedikt Warén boltann á miðjunni og keyrði af stað upp völlinn. Benedikt renndi boltanum í gegn á Inga Þór sem var aleinn gegn Ólafi Íshólm og skoraði. Stúkan æstist upp við þetta mark og lagðist á bakvið heimamenn það sem eftir lifði leiks.

Fram vildi fá víti á 69. mínútu þegar Árni Salvar Heimisson virtist brjóta á Guðmundi Magnússyni innan teigs Skagamanna en Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, dæmdi ekkert.

Átta mínútum síðar, á 77. mínútu, komust Skagamenn aftur yfir í leiknum og aftur var það Eyþór Aron Wöhler. Kaj Leo tók hornspyrnu á fjærstöngina sem Viktor Jónsson skallaði í jörðina, upp í slánna og svo til Eyþórs sem skallaði boltann í netið. Allt ætlaði að verða vitlaust á Skaganum. Staðan orðin 3-2 og um það bil korter eftir.

Fram reyndi hvað það gat að jafna leikinn aftur en varnarleikur ÍA hélt vel, náði að hreinsa alla hættu frá og vann að lokum gríðarlega mikilvægan sigur sem gæti orðið byrjunin á einhverju svakalegu, líkt og við sáum í fyrra.

Af hverju vann ÍA?

Það var meira undir, leikurinn var mikilvægari fyrir þá og þeir seldu sig heldur betur dýrt. Sóknarmennirnir hjá ÍA voru duglegir að skapa sér færi eins og þeir gerðu í Keflavík síðast en nú nýttu þeir færin betur. ÍA efldist þegar leið á leikinn og stúkan með, sem er svo svakalega sterk á Skaganum þegar hún vaknar.

Hverjir voru bestir?

Eyþór Aron Wöhler var lang bestur hjá ÍA eins og hann hefur verið nánast í allt sumar. Skorar tvö mörk og það er svo alls ekki nógu mikið talað um alla vinnuna sem hann leggur í leikinn fyrir liðið.

Mér fannst Benedikt Warén eiga fínan leik sömuleiðis og Ingi Þór kom vel inn í lið ÍA.

Albert Hafsteinsson og Tiago voru bestir hjá Fram. Stýra saman öllu sem fer fram í sóknarleik Fram.

Hvað mætti betur fara?

Mörkin sem ÍA fékk á sig voru allt að því hlægileg. Varnarleikurinn til skammar hreinlega. Fyrst fá þrír Skagamenn tækifæri til þess að hreinsa burt áður en Albert skorar og svo er eins og það sé enginn talandi í marki númer tvö. Svipuð mörk og við höfum séð ÍA fá á sig í undanförnum leikjum en sem betur fer kom það ekki að sök í dag.

Hvað gerist næst?

Skagamenn verða límdir við skjáinn kl 15:15 á mánudaginn þegar FH fær Leikni í heimsókn í fallbaráttunni.

Síðan mætir ÍA í Breiðholtið á laugardaginn 15. október til þess að sækja næsta sigur.

Fram fær ÍBV í heimsókn sunnudaginn 16. október.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira