Þrenna Trossard skemmdi endurkomu Liverpool

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leandro Trossard skoraði þrennu á Anfield í dag.
Leandro Trossard skoraði þrennu á Anfield í dag. Clive Brunskill/Getty Images

 Leandro Trossard reyndist hetja Brighton er hann tryggði liðinu stig gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 3-3, en Trossard skoraði öll mörk gestanna.

Þetta var fyrsti leikur Brighton undir stjórn nýs þjálfara, Ítalans Roberto De Zerbi. Liðið byrjaði vel undir hans stjórn, en Leandro Trossard kom Brighton yfir strax á fjórðu mínútu leiksins.

Trossard var svo aftur á ferðinni á 17. mínútu þegar hann skoraði annað mark sitt, og annað mark Brighton, og staðan því orðin 0-2.

Roberto Firmino minnkaði þó muninn fyrir heimamenn eftir rúmlega hálftíma leik eftir stoðsendingu frá Mohamed Salah og staðan því 1-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Firmino hafði greinilega engan húmor fyrir því að vera undir gegn Brighton því hann jafnaði metin með marki snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá Luis Diaz.

Heimamenn fullkomnuðu svo endurkomu sína eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Adam Webster varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan orðin 3-2, Liverpool í vil.

Það var þó títtnefndur Leandro Trossard sem skemmdi partýið fyrir heimamönnum þegar hann jafnaði metin fyrir Brighton sjö mínútum fyrir leikslok og þar við sat. 

Niðurstaðan því 3-3 jafntefli í fjörugum leik og Brighton heldur fjórða sæti deildarinnar með 14 stig eftir sjö leiki. Liverpool situr hins vegar í níunda sæti deildarinnar með tíu stig, ellefu stigum á eftir toppliði Arsenal sem vann öruggan 3-1 sigur gegn Tottenham fyrr í dag.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.