Erlent

Boða innlimun, heita syndaaflausn og hóta kjarnorkustríði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Patríarkinn í Moskvu er einarður stuðningsmaður Rússlandsforseta og innrásarinnar í Úkraínu.
Patríarkinn í Moskvu er einarður stuðningsmaður Rússlandsforseta og innrásarinnar í Úkraínu. epa/Maxim Shipenkov

Atkvæðagreiðslum í Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhizhia um innlimun svæðanna í Rússland lýkur í dag. Rússneskir miðlar segja kosningaþátttöku vera komna yfir 50 prósent, sem sérfræðingar segja lygi.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti mun ávarpa báðar deildir rússneska þingsins á föstudag, þar sem hann mun mögulega tilkynna um innlimun hinna áðurnefndu hernumdu svæða.

Patríarkinn Kirill, leiðtogi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, segir þá hermenn Rússlands sem falla á vígvellinum í Úkraínu munu hljóta syndaaflausn. Sú fórn að deyja fyrir móðurlandið muni hreinsa þá af öllum syndum.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir herkvaðningu Rússa hins vegar tilraun til að sjá herforingjum fyrir stöðugum straum af „fallbyssufóðri“.

Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og varaformaður þjóðaröryggisráðs landsins, hefur enn og aftur hótað notkun kjarnorkuvopna undir rós en hann sagði að ef til þess kæmi að Rússar beittu „sínu mesta vopni“ gegn Úkraínustjórn myndu stjórnvöld á Vesturlöndum ekki svara í sömu mynt, þar sem Atlantshafsbandalagið forgangsraðaði öryggi Washington, Lundúna og Brussel fram yfir örlög Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×