Íslenski boltinn

Með tvær stoðsendingaþrennur á tveimur vikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir fékk heiðursskiptingu undir lok leiks Aftureldingar og Vals.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir fékk heiðursskiptingu undir lok leiks Aftureldingar og Vals. vísir/tjörvi

Í tveimur af síðustu fjórum leikjum Vals í Bestu deild kvenna í fótbolta hefur Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir verið með stoðsendingaþrennu.

Þórdís lagði upp öll þrjú mörk Vals þegar liðið vann Aftureldingu, 1-3, á laugardaginn. Með sigri tryggðu Valskonur sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Þetta var í annað sinn á sextán dögum sem Þórdís leggur upp þrjú mörk í sama leiknum. Hún var einnig með stoðsendingaþrennu í 0-6 sigri KR á Val 9. september. Þórdís skoraði einnig eitt mark í þeim leik.

Í leiknum gegn KR lagði Þórdís upp mörk fyrir Mist Edvardsdóttir og Ásdísi Karenu Halldórsdóttur auk þess sem leikmaður KR-inga skoraði sjálfsmark eftir fyrirgjöf hennar. Í leiknum gegn Aftureldingu lagði Þórdís upp tvö mörk fyrir Cyeru Hintzen og eitt fyrir Önnu Rakel Pétursdóttur. Stoðsendingaþrennur Þórdísar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Stoðsendingaþrennur Þórdísar Hrannar

Þórdís hefur alls lagt upp ellefu mörk í sumar, flest allra leikmanna í Bestu deildinni. Hún hefur einnig skorað sex mörk og því komið að sautján mörkum í heildina. Engin annar leikmaður í Bestu deildinni hefur komið að fleiri mörkum en Þórdís.

Valur mætir Slavia Prag í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn. Valskonur eru 0-1 undir eftir fyrri leikinn.

Í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardaginn tekur Valur á móti Selfossi. Eftir leikinn fá Valskonur Íslandsmeistarabikarinn afhentan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.