Erlent

Tugir farandfólks fórust undan ströndum Sýrlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkrabílar og ættingjar í Líbanon bíða eftir að fara yfir landamærin að Sýrlandi til að sækja lík þeirra sem fórust.
Sjúkrabílar og ættingjar í Líbanon bíða eftir að fara yfir landamærin að Sýrlandi til að sækja lík þeirra sem fórust. Vísir/EPA

Leitarlið hefur fundið 71 lík eftir að bátur með á annað hundrað farandfólks sökk undan ströndum Sýrlands í gær. Björgunaraðgerðir standa enn yfir en tuttugu manns hafa fundist á lífi til þessa og verið fluttir á sjúkrahús í Sýrlandi.

Embættismenn í Sýrlandi segja að 120-150 manns hafi verið um borð í bátnum, þar á meðal konur og börn. Fólkið hafi verið frá Líbanon, Sýrlandi og Palestínu. Báturinn er lagði upp frá Minyeh, nærri hafnarborginni Trípolí í Líbanon en ekki er ljóst hvað varð til þess að hann sökk. Talið er að fólkið hafi verið á leiðinni til Evrópu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Stríður straumur farand- og flóttafólks hefur verið frá Líbanon undanfarið. Þar geisar nú efnahagskreppa auk þess sem áhrifa Covid-faraldursins og sprengingarinnar miklu í höfninni í Beirút gætir enn. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna reyndu tvöfalt fleiri að komast til Evrópu frá Líbanon en árið áður. Það sem af er ári hefur ferðum fólks þaðan fjölgað um 70% frá því í fyrra.

Á meðal þeirra sem fórust í skipsskaðanum í gær var Mustafa Mesto, 35 ára gamall leigubílstjóri frá Líbanon, tvær dætur hans og sonur. Eiginkona hans og faðir liggja þungt haldin á sjúkrahúsi í Sýrlandi, að sögn fréttaritara BBC.

„Hann flúði fátækt og þær hræðilegu aðstæður sem þau skildu okkur eftir í. Þessum stjórnmálamönnum gæti ekki staðið meira á sama um okkur. Ekkert færir mér hann aftur, ekkert færir mér litlu börnin hans aftur,“ hefur BBC eftir Ödlu, móður Mustafa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×