Íslenski boltinn

Blóðtaka fyrir KR: Hallur frá í allt að ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hallur Hansson er frá út tímabilið og óvíst er hvort hann geti tekið nokkurn þátt á því næsta.
Hallur Hansson er frá út tímabilið og óvíst er hvort hann geti tekið nokkurn þátt á því næsta. Vísir/Hulda Margrét

Hallur Hansson, miðjumaður KR og fyrirliði færeyska landsliðsins í fótbolta, meiddist alvarlega í leik KR og Víkings um liðna helgi. Hann verður frá í allt að ár vegna meiðslanna.

Hallur samdi við KR fyrir yfirstandandi leiktíð og gildir samningurinn út þá næstu. Hann meiddist alvarlega á hné í leiknum í Víkinni og samkvæmt vefsíðu færeyska knattspyrnusambandsins mun hann vera frá í níu til tólf mánuði vegna meiðslanna.

„Þetta eru verstu fréttir sem ég gat fengið. En svona er fótboltinn og nú þarf að leiða hugann fram veginn og að koma sterkari til baka,“ er haft eftir Halli á heimasíðu sambandsins.

Hallur er þrítugur og skoraði eitt mark í 19 leikjum fyrir KR í sumar. Ljóst er hann mun ekki taka frekari þátt hjá KR á tímabilinu.

KR-liðið lauk keppni í 5. sæti Bestu deildar karla fyrir skiptingu deildarinnar í tvennt. KR verður því í efri hlutanum í haust en sú keppni hefst eftir yfirstandandi landsleikjahlé.

KR sækir KA heim norðan heiða í fyrsta leik, sunnudaginn 2. október.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.