Erlent

Ætla sér að kjósa um innlimun í Rússland

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamenn hreinsa brak úr hóteli sem varð fyrir sprengjuregni í átökum Rússa og Úkraínu í borginni Kramatosk í Donetsk-héraði. Uppreisnarmenn sem ráða hluta héraðsins ætla sér að halda atkvæðagreiðslu um að gangast Rússlandi formlega á hönd.
Verkamenn hreinsa brak úr hóteli sem varð fyrir sprengjuregni í átökum Rússa og Úkraínu í borginni Kramatosk í Donetsk-héraði. Uppreisnarmenn sem ráða hluta héraðsins ætla sér að halda atkvæðagreiðslu um að gangast Rússlandi formlega á hönd. Vísir/EPA

Embættismenn í hersetnum héruðum í austan- og sunnanverðri Úkraínu ætla sér að halda atkvæðagreiðslu um að þau verði hluti af Rússlandi um helgina. Fyrrverandi forseti Rússlands segir innlimunina nauðsynlega til þess að hægt sé að beita öllum brögðum til að verja svæðin.

Tilkynnt var um atkvæðagreiðslurnar í Donetsk, Lúhansk, Kherson og Saporisjía í dag. Þær eiga að hefjast á föstudag og standa yfir fram á þriðjudag í næstu viku. 

AP-fréttastofan segir að úrslit slíkra atkvæðagreiðslna séu ráðin fyrir fram en að ólíklegt sé að vestræn ríki muni viðurkenna þær. Sambærileg atkvæðagreiðsla var einnig haldin á Krímskaga áður en Rússar innlimuðu hann ólöglega árið 2014.

Luhansk og Donetsk eru hluti af Donbas-héraði sem uppreisnarmennirnir hafa stjórnað að hluta frá því árið 2014 og Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur lagt allt kapp á að ná alfarið á sitt vald. Innrásarher Rússa hefur aðeins um 60% af Donetsk á sínu valdi og Úkraínuher reynir nú að ná Lúhansk aftur á sitt vald.

Dmitríj Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og bandamaður Pútín, hvatti til þess að atkvæðagreiðslur af þessu tagi yrðu haldnar á svæðum sem uppreisnarmennirnir stjórna til þess að gera breytingar á landamærum Rússlands og Úkraínu óafturkræfar. Þá gætu stjórnvöld í Kreml ennfremur beitt allra bragða til að verja landsvæðin.

Rússneskir fjölmiðlar hafa greint frá því í dag að Pútín ætli sér að ávarpa þjóðina síðar í dag, mögulega um innlimun úkraínsku héraðanna en það hefur þó ekki fengist staðfest.

Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að „falskar þjóðaratkvæðagreiðslur“ ættu ekki eftir að breyta neinu um stöðu átakanna.

„Rússland hefur verið og er árásaraðilinn sem hernemur hluta úkraínsks landsvæði ólöglega. Úkraína hefur allan rétt á að frelsa landsvæði sín og mun halda áfram að frelsa þau, sama hvað Rússland segir,“ tísti ráðherrann í dag.


Tengdar fréttir

Saka Rússa um að skjóta flug­skeyti að kjarn­orku­veri

Rússneskt flugskeyti er sagt hafa lent aðeins nokkur hundruð metra frá ofni Pivdennoukrainsk-kjarnorkuversins í sunnanverðri Úkraínu í dag. Kjarnaofnarnir hafi ekki skaddast en skemmdir hafi orðið á öðrum byggingum og búnaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×