Erlent

Selenskí í Izyum og Rússar sagðir í basli í suðri

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí í Izyum í morgun.
Vólódímír Selenskí í Izyum í morgun. Forsetaembætti Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti Izyum í Kharkív-hérað í morgun en hersveitir Úkraínu ráku rússneska hermenn þaðan á dögunum í vel heppnaðri gagnsókn. Forsetinn sagði eyðilegginguna mikla en hann hefði séð sambærilega eyðileggingu áður í öðrum bæjum og þorpum sem búið væri að frelsa frá Rússum.

„Það sem blasir hér við er átakanlegt en ekki svo átakanlegt í mínum augum, því við sáum það sama í Bucha, frá fyrstu frelsuðu svæðum. Sömu eyðilögðu byggingar og myrt fólk,“ sagði Selenskí í Izyum í morgun.

AP fréttaveitan hefur eftir úkraínskum saksóknurum að minnst sex lík hafi fundist í Kharkív-héraði sem borið hafi ummerki þess að viðkomandi hafi verið pyntuð áður en þau voru myrt.

Sjá einnig: Hleruðu rússneska hermenn ræða morð á íbúum Bucha

Izyum er einungis nokkra kílómetra frá víglínunni í Úkraínu.

Blaðamaður AP heimsótti nýverið þorpið Hrakove í Kharkív-héraði. Þar bjuggu um þúsund manns fyrir innrásina en einungis þrjátíu eru eftir. Hús þorpsins eru þar að auki í rúst.

Sjá má stöðuna í grófum dráttum á meðfylgjandi kortum.

Segja margra saknað

Einn íbúi, sem heitir Klyzhen, sagðist hafa búið í 45 daga í kjallara sínum, því rússneskir hermenn hafi komið sér fyrir í húsinu. Hann sagði hermennina hafa verið óttaslegna og tortryggna. Þeir hafi skoðað síma allra til að leita að vísbendingum um að íbúar þorpsins væru að veita Úkraínumönnum upplýsingar.

Klyzhen segir einnig að einhverjir íbúar hafi verið teknir á brott og þeir hafi ekki sést síðan.

Honum tókst að flýja þorpið en sneri aftur á dögunum og kom hann að miklu drasli á heimili sínu. Í einu herberginu fann hann fjölda sjónvarpa sem hann telur að rússnesku hermennirnir hafi stolið en neyðst til að skilja eftir á undanhaldinu.

Úkraínumenn óttast að fjölmörg ódæði rússneskra hermanna eigi eftir að koma í ljós, eins og gerðist þegar Rússar hörfuðu frá svæðinu norður af Kænugarði. Margra sé saknað á svæðinu.

Sjá einnig: Segja Pútín hafa hafnað málamiðlun og stefnt ótrauðan á innlimun

Skildu mikið magn hergagna eftir

Izyum féll í hendur Rússa snemma í innrás þeirra í Úkraínu og hefur verið þeim gífurlega mikilvæg varðandi flutning birgða, hergagna og hermanna í austurhluta Úkraínu. Þegar rússneskir hermenn flúðu þaðan skildu þeir fjölmarga skrið- og bryndreka eftir auk stórskotaliðsvopna og annarra hergagna.

Greinendur Oryx, sem fara yfir myndefni á samfélagsmiðlum, segjast hafa staðfest að Rússar hafi tapað rúmlega hundrað skriðdrekum í Kharkív á einni viku.

Úkraínumenn segjast hafa handsamað rúmlega tvö hundruð skriðdreka, bryndreka og annarskonar brynvarin farartæki í Kharkív-héraði og að þessi hergögn verði notuð gegn Rússum í framtíðinni.

Þar að auki segja bæði Úkraínumenn og Bandaríkjamenn að fjölmargir rússneskir hermenn hafi verið handsamaðir af Úkraínumönnum í Kharkív.

Vonast eftir frekari aðstoð

Selenskí vonast til þess að árangur Úkraínumanna á vígvöllum Úkraínu muni skila sér í aukinni fjárhagslegri og hernaðarlegri aðstoð frá bakhjörlum landsins. Úkraínumenn segja bestu og fljótustu leiðina til að binda enda á stríðið í Úkraínu vera að hjálpa þeim að reka Rússa á brott.

Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hét því í morgun að sambandið myndi senda Úkraínumönnum aukna fjárhagsaðstoð vegna enduruppbyggingar í Úkraínu í kjölfar stríðsins. ESB myndi útvega hundrað milljónir evra aukalega til að enduruppbyggingar skólakerfis Úkraínu, samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Von der Leyen er sögð ætla að heimsækja Kænugarð í dag.

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, sagði í gær að ný hergagnasending til Úkraínu yrði líklegast samþykkt á næstu dögum. Bandaríkjamenn hafa þegar sent hergögn fyrir rúmlega fimmtán milljarða dala til landsins.

Í Þýskalandi hafa stjórnarandstöðuþingmenn auk nokkurra þingmanna stjórnarflokkanna kallað eftir því að Olaf Scholz, kanslari, heimili sendingu þýskra skrið- og bryndreka til Úkraínu. WSJ hefur þó eftir Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra, að Þjóðverjar myndu ekki senda vestræna skriðdreka til Úkraínu án sambærilegra sendinga frá öðrum Vesturlöndum, sem hefur hingað til ekki verið til umræðu.

Einn heimildarmaður miðilsins úr þýsku ríkisstjórninni sagði að Þjóðverjar ætluðu sér ekki að vera þeir fyrstu til að senda vestræna skriðdreka til Úkraínu. Þeir væru þau að auka framlag þeirra til ríkisins hægt og rólega.

Hann gagnrýndi Frakka fyrir að gera ekki hið sama.

Þjóðverjar hafa lengi verið gagnrýndir fyrir að senda Úkraínumönnum litla aðstoð en sú gagnrýni er ekki réttmæt. Þjóðverjar hafa sent Úkraínumönnum mikla aðstoð í formi loftvarnarkerfa, eldflaugakerfa, fallbyssa og bryndreka, auk þess sem þeir hafa gefið Úkraínu mikið magn eldflauga til að granda skrið- og bryndrekum, ratsjár, hlífðarbúnað, skotfæri og ýmislegt fleira.

Rússar sagðir í basli í suðri

Úkraínumenn hafa einnig staðið í gagnsókn gegn Rússum í Kherson-héraði í suðri. Þar hafa þeir náð hægum en kostnaðarsömum árangri en rússneskir hermenn á norðurbakka Dnipro-ár eru taldir eiga í erfiðleikum þessa dagana.

Í aðdraganda sóknarinnar í Kherson eru Rússar sagðir hafa byggt upp varnir sínar og flutt margar af sínum bestu sveitum til héraðsins, norður af Dnipro-á.

Hersveitir Úkraínu hafa beitt stórskotaliði til að gera Rússum erfitt um vik með að flytja birgðir og liðsauka til þessara sveita. Brýr yfir ána hafa verið sprengdar og Úkraínumenn beina eldflaugum sínum og stórskotaliði markvisst að ferjum Rússa og flotbrúm.

Embættismenn í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sögðu á blaðamannafundi í morgun að þeir hefðu séð vísbendingar um að Rússar væru byrjaðir að hörfa til suðurs, yfir ána. Það gengi þó illa, vegna áðurnefndra árása.

Sjá einnig: Ætla að grafa hægt og rólega undan Rússum

Blaðamaður Economist, sem var á blaðamannafundinum, hefur eftir ráðuneytinu að enn séu um tuttugu þúsund rússneskir hermenn á norðurbakka Dnipro og að baráttuandi þeirra sé þverandi.

Þá segja Bandaríkjamenn að stjórnskipulag rússneska hersins sé verulega hægfara. Skipanir þurfi að vera samþykktar í Moskvu, með tilheyrandi hægagangi.

Tass fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir embættismanni í Kherson, sem skipaður var í embætti af Rússum, að fjölmargir erlendir málaliðar berjist með Úkraínumönnum í héraðinu. Þeir séu frá Bandaríkjunum, Póllandi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og öðrum ríkjum.

Hann sagði hersveitir Úkraínu í Kherson- og í Zaporizhzhia-héruðum en þeir væru flestir lítið þjálfaðir. Hermenn Rússlands á svæðinu væru vel þjálfaðir og varnir héldu vel.

Það að hjarðir erlendra sjálfboðaliða berjist með Úkraínumönnum hefur verið mikið til umræðu í sjónvarpi í Rússlandi. Það þykir til marks um að Rússar eigi í átökum við Atlantshafsbandalagið auk Úkraínu og að Úkraínumenn gætu aldrei sigrað Rússa án erlendra aðila.


Tengdar fréttir

Xi og Pútín funda um innrásina í Úkraínu

Xi Jinping, forseti Kína, hóf í dag fyrsta ferðalag sitt frá því Covid-faraldurinn hófst, með því að fara til Kasakstan. Hann mun svo funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og öðrum leiðtogum Mið-Asíu á komandi dögum í Úsbekistan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×