Umfjöllun og viðtöl: Selfoss-Stjarnan 1-1 | Allt jafnt á Selfossi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfoss og Stjarnan skiptu stigunum á milli sín í dag.
Selfoss og Stjarnan skiptu stigunum á milli sín í dag. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust á Jáverk-vellinum í 15. umferð Bestu-deildar kvenna í dag.

Stjörnukonur byrjuðu leikinn betur og ógnuðu marki Selfyssinga í nokkur skipti í upphafi leiks. Mest voru þetta þó hálffæri og Tiffany Sornpao lenti ekki í miklum vandræðum í marki Selfyssinga.

Þrátt fyrir góða byrjun gestanna vou það heimakonur sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Á 18. mínútu leiksins fékk Bergrós Ásgeirsdóttir boltann úti á kanti og kom honum fyrir markið. Miranda Nild gerði þá virkilega vel í að koma sér fram fyrir varnarmenn Stjörnunnar og stýrði boltanum snyrtilega í netið.

Eftir markið róaðist leikurinn og liðin skiptust á að klappa boltanum. Stjörnukonur voru þó fyrri til að koma sér í gang aftur og á 38. mínútu jafnaði Gyða Kristín Gunnarsdóttir metin fyrir gestina eftir fyrirgjöf frá Önnu Maríu Baldursdóttur. Gyða stóð þá ein og óvölduð inni á teignum og eftirleikurinn var auðveldur.

Líkt og eftir fyrra markið róaðist leikurinn á ný og hálfleikurinn ran sitt skeið. Staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikurinn var svo keimlíkur þeim fyrri. Lítið var um færi og liðin skiptust á að klappa boltanum.

Stjörnukonur voru þó sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og eftir því sem leið á settu þær meiri pressu á Selfyssingana.

Vörn heimakvenna stóð þó vel og gestirnir áttu í erfiðleikum með að búa sér til opin marktækifæri. Þeim tókst það þó í tvígang í hálfleiknum, en Tiffany Sornpao stóð vaktina vel í marki Selfyssinga og varði vel í bæði skiptin.

Að lokum fjaraði leikurinn út og eftir nokkuð langan uppbótartíma var flautað til leiksloka. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli í nokkuð bragðdaufum leik í sólinni á Selfossi.

Af hverju varð jafntefli?

Liðin sköpuðu sér heilt yfir fá færi og af þeim sökum er kannski erfitt að ætlast til þess að boðið sé upp á markaveislu. Stjörnukonur fengu þó tvö til þrjú góð færi í leiknum, ásamt nokkrum hálffærum, og á öðrum degi hefðu þær líklega getað klárað þennan leik.

Hverjar stóðu upp úr?

Varnarlína Selfyssinga á hrós skilið fyrir sinn leik í dag og þar standa fremstar meðal jafningja þær Sif Atladóttir og Tiffany Sornpao. Þrátt fyrir að vera farin að nálgast seinni hluta ferilsins þá var Sif líklega sá leikmaður sem hljóp mest í leiknum og barðist vel í vörninni og þegar eitthvað klikkaði í vörninni þá var Tiffany mætt til að redda málunum í markinu.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að skapa sér færi í dag. Eins og áður segir þá náðu Stjörnukonur þó að koma sér í góð færi undir lok leiks, en Selfyssingar nýttu líklega sitt eina færi í leiknum.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar heimsækja botnlið KR að viku liðinni en Stjarnan tekur á móti Þrótti degi síðar.

Björn: Seinni hálfleikurinn var með þeim slakari sem við höfum spilað í sumar

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, var ekki nógu sáttur með leik liðsins í dag.Vísir/Diego

„Þetta voru mjög misjafnir hálfleikar. Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn, og þá sérstaklega fram að markinu sem við bjóðum þeim upp á, mjög vel. En seinni hálfleikurinn var eiginlega bara með þeim slakari sem við höfum spilað í sumar ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Við getum eiginlega bara þakkað fyrir það að hafa fengið þennan punkt,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, eftir leikinn.

Birni fannst liðið byrja leikinn ágætlega, en fannst mikið vanta upp á í síðari hálfleik.

„Við byrjuðum leikinn á því að setja býsna háa pressu á þær og að þvinga þær í mistök. Við kannski sköpum okkur ekkert brjálæðislega mikið af opnum færum en við komum okkur í álitlegar stöður og skorum frekar gott mark þar sem var gott spil fram að markinu. Svo finnst mér við halda áfram að halda boltanum og þær eru í veseni með að klukka okkur.“

„Þetta var klaufalegt mark að fá á okkur en við eigum bara að geta haldið áfram að gera það sem við vorum búin að vera að gera fram að þessu marki. Við vorum að gera það í stöðunni 0-0 þannig ég veit ekki af hverju við ættum ekki að geta gert það í stöðunni 1-1. Það var eins og það hefði komið einhver smá streita yfir leikmenn þó svo að við höfum talað um það inni í klefa í hálfleik að halda rónni og byrja að rúlla boltanum aftur og finna opnanir. En það bara kom ekki og við fórum bara í old-school sparka langt þó að það hafi ekki verið partur af planinu.“

Þrátt fyrir að hafa ekki verið nógu sáttur við spilamennsku liðsins í dag gat Björn þó hrósað varnarlínunni.

„Við erum með sterka varnarlínu og tvo öfluga sitjandi varnarmenn fyrir framan og Tiffany er góð í markinu, það er engin spurning. Varnarleikurinn hefur ekkert verið neitt vandamál hjá okkur í sumar. Við erum að fá á okkur held ég þriðju fæstu mörkin af öllum liðum í deildinni.“

„En sóknarleikurinn. Ef við spilum eins og við spiluðum fyrsta hálftíman þá ættum við að geta gefið öllum liðum leik, en ef við spilum eins og við spiluðum eftir að við fáum á okkur markið þá erum við ekkert að fara að skora mörk. Það er bara svoleiðis.“

Selfossliðið á nú þrjá leiki eftir á tímabilinu í Bestu-deildinni, en liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig. Þrátt fyrir að það verði að teljast ólíklegt getur liðið í allra besta falli hafnað í öðru sæti deildarinnar og í allra versta falli því áttunda. Björn segist þó ekki vera að velta töflunni fyrir sér.

„Við erum ekkert að pæla í þessari töflu. Við erum ekki að fara að falla og við erum ekki að fara að vera Íslandsmeistarar. Þannig við verðum bara að halda áfram að bæta þetta sem við erum búin að vera að bæta. Við erum búin að vera að blanda leiknum okkar mun betur seinustu umferðir. Við erum búin að halda boltanum þegar það á við og erum búin að koma okkur í hættuleg svæði fyrir aftan varnarlínu andstæðinganna þegar það á við. Við þurfum bara að halda áfram að geta tengt sendingar á vallarhelmingi andstæðinganna og við gerðum það hérna framan af.“

„Við fundum það að það myndaðist pirringur í Stjörnuliðinu þegar við vorum að rúlla boltanum á þeirra vallarhelmingi. Þær vildu fá boltann en fengu hann ekki á löngum köflum. En svo þurfum við bara að þora að gera þetta lengur og oftar,“ sagði Björn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira