Enski boltinn

Ólíklegt að leikið verði á Englandi um helgina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enski boltinn verður að öllum líkindum settur á ís um helgina.
Enski boltinn verður að öllum líkindum settur á ís um helgina. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Eftir andlát Elísabetar II Bretlandsdrottningar í dag þykir afar ólíklegt að leikir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sem og neðri deildum landsins, muni fara fram.

Eins og greint var frá á flestum miðlum heims fyrr í dag lést Elísabet II Bretlandsdrottning í kastala sínum í Skotlandi í dag. Hún var 96 ára gömul, en heilsu hennar hafði hrakað hratt á undanförnum mánuðum.

Af þeim sökum verður þjóðarsorg væntanlega lýst yfir á Bretlandseyjum og því verður öllum íþróttum í landinu frestað.

Henry Winter, einn virtasti íþróttablaðamaður Englands, vekur athygli á þessu á Twitter-síðu sinni. Heil umferð átti að fara fram í ensku úrvalsdeildinni um helgina, þar á meðal stórleikur Manchester City og Tottenham á laugardaginn.

Ensku deildarsamtökin EFL sendu einnig frá sér tilkynningu fyrr í kvöld þar sem segir að komandi leikir verði ræddir við bresku ríkisstjórnina og að tilkynningar um þá sé að vænta eins fljótt og mögulegt er.

Þá hefur það nú þegar verið staðfest að leikir morgundagsins í enska boltanum munu ekki fara fram. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley áttu að taka á móti Norwich í ensku B-deildinni og Tranmere Rovers og Stockport County áttu að mætast í C-deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.