Chelsea er þegar komið í viðræður við Brighton og ætlar að setja sig í samband við Potter samkvæmt breskum fjölmiðlum. Brighton mun ekki setja sig gegn viðræðunum samkvæmt sömu fréttum en Chelsea mun þá þurfa að greiða uppsagnarákvæði upp á 16 milljónir punda.
Potter hefur unnið sig jafnt og þétt upp metorðastigann á sínum þjálfaraferli sem hófst hjá Östersund í Svíþjóð. Þar vann hann mikið þrekvirki og kom smáliðinu úr neðstu deild í þá efstu, vann sænska bikarinn og komst upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Hann náði góðum árangri á einni leiktíð með Swansea í B-deildinni á Englandi áður en hann tók við Brighton árið 2019 og hefur stýrt liðinu við góðan orðstír.
How good is Graham Potter?
— John Terry (@JohnTerry26) August 23, 2022
I love how Brighton play and he has to be one of the best young managers around. Ticks every box for me. pic.twitter.com/1CNL90lyFW
John Terry, sem lék með Chelsea frá 1998 til 2017 og vann fimm Englandsmeistaratitla með liðinu, kveðst spenntur fyrir þeim möguleika að sjá Potter á hliðarlínunni hjá Chelsea.
„Hversu góður er Graham Potter? Ég elska spilamennsku Brighton og hann verður að teljast á meðal bestu ungu þjálfaranna í heiminum. Hann tikkar í hvert box fyrir mér,“ sagði Terry á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.
Zinedine Zidane og Mauricio Pochettino eru einnig sagðir ofarlega á lista Chelsea og félagið myndi ekki þurfa að greiða lausnargjald fyrir þá, líkt og Potter, enda báðir atvinnulausir sem stendur.