Umfjöllun: Breiða­blik-Valur 1-0 | Langþráð mark Ísaks Snæs tryggði Blikum 11 stiga forskot

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson skorar hér sigurmark Blika. 
Ísak Snær Þorvaldsson skorar hér sigurmark Blika.  Vísir/Vilhelm

Breiðablik lagði Val að velli með einu marki gegn engu þegar liðin áttust við í 20. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Það var Ísak Snær Þorvaldsson sem reyndist hetja Blika í leiknum. 

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Höskuldur Gunnlaugsson, Gísli Eyjólfsson og Kristinn Steindórsson voru aðgangsharðastir upp við mark Valsmanna. Frederik Schram varði hins vegar allt sem á markið kom og staðan markalaus í hálfeik.

Ólafur Davíð Jóhannesson, þjálfari Vals, var sýnilega ósáttur við bæði varnarleik og sóknaruppbyggingu lærisveina sinna fyrstu 45 mínútur leiksins en hann fussaði og sveiaði og fórnaði höndunum ótt og títt á hliðarlínunni.

Leikmenn Blika áttu í litlum vandræðum með að spila í gegnum miðsvæðið hjá Val, skapa sér góðar stöður og koma sér í álitleg skotfæri. Það tók hins vegar tíma að finna leið framhjá danska markverðinum hjá Hlíðarendaliðinu.

Valsmenn komu öflugri til leiks í seinni hálfleikinn en Valsarar náðu að koma Aroni Jóhannssyni meira inn í sóknarleik sinn. Aron kom Orra Hrafni Kjartanssyni tvisvar sinnum í góðar stöður en kantmaðurinn náði ekki að færa sér þær sendingar í nyt.

Það var svo eftir rúmlega klukkutíma leik sem Ísak Snær Þorvaldsson fann netmöskvana á marki Vals. Sveitungi hans Jason Daði Svanþórsson sendi þá hárnákvæma sendingu á fjærstöngina þar sem Ísak Snær var staddur og skilaði boltanum í netið.

Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm

Þetta var langþráð mark hjá Ísaki Snæ en hann skoraði síðast í deildinni í byrjun ágústmánuðar þegar hann var á skotskónum í sigri Breiðabliks gegn Skagamönnum. Ísak Snær hefur nú skorað 13 deildarmörk og er næstmarkahæstur á eftir KA-manninum Nökkva Þey Þórissyni sem er genginn til liðs við belgíska B-deildarliðið Beerschot og skorar ekki meira í deildinni í sumar í það minnsta.

Krafturinn sem var í gestunum í upphafi seinni hálfleiks minnkaði eftir að Blikar náðu forystunni og Valur skapaði í raun engin opin marktækifæri sem voru líkleg til þess að leiða til jöfnunarmarks það sem eftir lifði leiks.

Breiðablik innbyrti þar af leiðandi sanngjarnan 1-0 sigur sem gerir það að verkum að liðið hefur 11 stiga forskot á KA á toppi deildarinnar. Víkingur er síðan 12 stigum á eftir Blikum en ríkjandi Íslandsmeistarar eiga leik til góða á toppliðið.

Vísir/Vilhelm

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar spiluðu sig einfaldlega heilt yfir mun betur í þessum og sköpuðu sér þó nokkur færi fyrir utan sigurmark Ísaks Snær. Leikmönnum Blika gekk vel að finna þær glufur á milli línanna sem þeir vilja í uppspili sínu. Þá fengu Valsmenn fá færi hinum megin. 

Hvað gekk illa?

Uppspil Valsmanna var lengstan hluta leiksins fremur stirt en það var einungis í um það bil stundarfjórðung í upphafi seinni hálfleiks sem Valsarar náðu að setja einhverja pressu á heimamenn. Miðjumenn Vals náðu ekki að halda í við léttleikandi miðju Blika og þurfti Haukur Páll að stöðva sóknar heimamanna á ólöglegan hátt það oft að taka þurfi hann af velli þar sem hætt var við því að næsta brot myndi leiða til annarrar áminngar hans og þar með rauðs spjalds. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Hinn fjölhæfi leikmaður Dagur Dan Þórhallsson átti enn eina ljómandi fínu frammistöðuna en hann lék bæði í stöðu vinstri bakvarðar og svo inni á miðjunni í þessum leik. Höskuldur Gunnlaugsson fann sig vel framarlega á miðjunni og Gísli Eyjólfsson sömuleiðis. 

Frederik Schram varði oft og tíðum vel í marki Valsmanna og á þeim kafla þar sem Valsarar náðu sóknarlotum sínum í leiknum var Aron Jóhannsson í aðalhlutverki í sóknaraðgerðum þeirra. 

Hvað gerist næst?

Blikar sækja KA heim norður á Akureyri í næstu umferð deildarinnar á sunnudaginn kemur. Valsmenn fara hins vegar í heimsókn í Breiðholtið og etja kappi við Leikni.

Vísir/Vilhelm

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira