Enski boltinn

Líkir Haaland við Jaws úr James Bond

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki er vitað hvort Erling Haaland nagar spýtur eins og Jaws gerði stundum.
Ekki er vitað hvort Erling Haaland nagar spýtur eins og Jaws gerði stundum. vísir/getty

Ógnvænlegur Erling Haaland mun leiða Manchester City til þriðja Englandsmeistaratitilsins í röð. Þetta segir Gary Neville, sérfræðingur Sky Sports.

Haaland hefur farið frábærlega af stað með City og er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með tíu mörk. Eitt þeirra kom um helgina þegar City gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa á Villa Park.

Neville segir að Haaland sé ekki árennilegur og líkir honum við þekkt illmenni í kvikmyndasögunni.

„Erling Haaland, þetta er nánast ósanngjarnt. Ég man þegar ég horfði á James Bond þegar ég var yngri og sá persónuna Jaws sem var risastór. Hann tók fólk bara upp og henti því á jörðina og það er svolítið þannig þegar Haaland spilar á móti þessum sterku miðvörðum,“ sagði Neville í hlaðvarpi sínu á Sky Sports. „Þú hugsar að hann sé óstöðvandi. Hvernig glímirðu við hann í vítateignum?“

Neville hefur hrifist mjög af Haaland og segir að hann verði eflaust besti leikmaður heims áður en langt um líður.

„Hann hefur heillað mig svakalega mikið. Þetta er í fyrsta sinn sem lið í ensku úrvalsdeildinni á einn af bestu ungu leikmönnum heims. Venjulega fara þessir leikmenn til Paris Saint-Germain, Real Madrid eða Barcelona. Cristiano Ronaldo varð bestur í heimi þegar hann spilaði hérna og kannski Thierry Henry en þeir voru það ekki þegar þeir komu hingað,“ sagði Neville.

„En með Haaland hugsarðu að hann eigi eftir að vinna Gullboltann og vera bestur í heimi. Það er spennandi og hefur ekki gerst í ensku úrvalsdeildinni í nokkurn tíma.“

Haaland spilar væntanlega sinn fyrsta leik fyrir City í Meistaradeild Evrópu þegar liðið sækir Sevilla heim annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×