Enski boltinn

Úlfarnir leita til Diego Costa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Diego Costa að snúa aftur í enska boltann?
Diego Costa að snúa aftur í enska boltann? vísir/getty

Spænski sóknarmaðurinn Diego Costa gæti verið að fá óvænt tækifæri til að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

Samkvæmt heimildum SkySports hefur Wolverhampton Wanderers sett sig í samband við þennan 33 ára gamla litríka sóknarmann sem hefur verið án félags síðan hann rifti samningi sínum við brasilíska úrvalsdeildarliðið Atletico Minero í byrjun árs.

Úlfarnir eru í framherjavandræðum eftir að nýjasti sóknarmaður liðsins, Sasa Kalajdzic, varð fyrir því óláni að meiðast í frumraun sinni fyrir félagið á laugardag. Sasa fór af velli í hálfleik og útlit fyrir að hann hafi meiðst illa á hné en Wolves borgaði 15 milljónir punda fyrir kappann undir lok félagaskiptagluggans.

Costa hefur verið að leita sér að félagi út um gjörvalla Evrópu undanfarnar vikur, án árangurs en hann náði sér ekki á strik í endurkomu sinni til Atletico Madrid.

Tímabilið 2016/2017 skoraði Costa 20 mörk í ensku úrvalsdeildinni fyrir Chelsea en hann lék alls þrjú tímabil í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×