Enski boltinn

„Það er í lagi að vera með flotta hárgreiðslu og keyra flotta bíla“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Thomas Tuchel.
Thomas Tuchel. vísir/Getty

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, kveðst vera í skýjunum með að endurnýja kynnin við gabonska sóknarmanninn Pierre Emerick Aubameyang.

Hinn 33 ára gamli Aubameyang gekk í raðir Chelsea frá Barcelona á lokadegi félagaskiptagluggans en hann hefur áður starfan undir stjórn Tuchel þar sem þeir unnu saman hjá Borussia Dortmund áður en Aubameyang var seldur til Arsenal. 

„Hann hefur haft þennan stjörnuljóma sem allir vilja tala um. Það þurfa ekki allir að klæðast dökkbláu og með leiðinlega derhúfu. Það er líka í lagi að vera með flotta hárgreiðslu og á flottum bíl,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi í gær og vísaði þar í þráláta umfjöllun enskra fjölmiðla um lífsstíl Aubameyang.

„Það er vandamál að fólk dæmir annað fólk mjög hratt. Fólk sér hann á glæsilegum bíl og áætlar þá að hann sé ekki nógu mikill atvinnumaður,“ hélt Tuchel áfram og sagðist búast við miklu af Aubameyang í búningi Chelsea.

„Hann er kannski aðeins klikkaðri (e. crazy) en við hin. Og það er allt í lagi. Þú þarft að vera pínulitið öðruvísi til að geta verið afburða góður innan vallar.“

„Fjöldi marka sem hann hefur skorað og öll athyglin sem hann hefur vakið á sér. Hann var til fyrirmyndar sem minn helsti framherji hjá Dortmund og ég efast ekki um að hann geti verið það hér líka,“ segir Tuchel

Aubameyang verður ekki í leikmannahópi Chelsea gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag þar sem hann hefur ekki enn æft með liðinu.


Tengdar fréttir

Aubameyang genginn í raðir Chelsea

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gengið frá kaupum á framherjanum Pierre-Emerick Aubameyang frá spænska stórveldinu Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×