Lokadagur gluggans í gær var fjörlegur að venju en þar stóðu upp úr 82 milljón punda kaup Manchester United á Brasilíumanninum Antony. Fjölmörg önnur lið í ensku úrvalsdeildinni bættu við sig í gær og fór heildareyðsla liðanna 20 þar með upp í 1,9 milljarð punda.
Það jafngildir rúmlega 312 milljörðum íslenskra króna en níu af liðunum 20 eyddu yfir 100 milljónum punda í sumar. Aldrei hafa lið í deildinni eytt meiri fjárhæðum á einu sumri, en fyrra met frá árinu 2017 var 1,4 milljarðar punda.
Þá voru nokkur met sett:
- Lið í ensku úrvalsdeildinni eyddu meira en öll lið úrvalsdeildanna á Spáni, Ítalíu og Þýskalandi til samans
- Chelsea eyddi meira fé í sumar en nokkurt enskt úrvalsdeildar félag hefur gert áður
- Manchester United bætti eigið met í einum glugga töluvert
- Nottingham Forest keypti fleiri leikmenn á einu sumri en nokkurt enskt félag hefur gert áður
Samanlögð eyðsla félaganna í glugganum, sem var opinn frá 10. júní til 1. september, var 67 prósent hærri en síðasta sumar þegar lið í deildinni eyddu 1,1 milljarði punda. Þá hefur aldrei svo miklu verið eytt á einu tímabili, jafnvel ef félagsskiptaglugginn í janúar er tekinn með. Fyrra met, frá tímabilinu 2017-18, var 1,86 milljarður punda - 3 prósentum lægri eyðsla en hjá úrvalsdeildarliðum í nýliðnum sumarglugga einum og sér.