Enski boltinn

Aubameyang genginn í raðir Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang er genginn til liðs við Chelsea.
Pierre-Emerick Aubameyang er genginn til liðs við Chelsea. Twitter/@ChelseaFC

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gengið frá kaupum á framherjanum Pierre-Emerick Aubameyang frá spænska stórveldinu Barcelona.

Chelsea greiðir um 10,3 milljónir punda fyrir leikmanninn sem samsvarar um 1,7 milljarði króna. Hann skrifar undir tveggja ára samning við þá bláklæddu.

Með kaupunum á Aubameyang hefur Chelsea nú eytt 278,4 milljónum punda í sumarglugganum, en aldrei hefur eitt félag eytt jafn miklum peningi í einum og sama glugganum frá upphafi.

Eins og aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar vita þekkir þessi 33 ára framherji deildina vel. Hann gekk í raðir Arsenal í lok janúargluggans árið 2018 og lék með liðinu þangað til í febrúar á þessu ári þegar hann færði sig yfir til Barcelona.

Með Arsenal lék Aubameyang 128 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 68 mörk. Þá er framherjinn markahæsti landsliðsmaður Gabon frá upphafi með 30 mörk í 72 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×