Enski boltinn

Ron­aldo vildi Maguire á bekkinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Félagarnir Harry Maguire og Cristiano Ronaldo í leik gegn Norwich City á síðustu leiktíð.
Félagarnir Harry Maguire og Cristiano Ronaldo í leik gegn Norwich City á síðustu leiktíð. Simon Stacpoole/Getty Images

The Athletic hefur greint frá því að Cristiano Ronaldo, ásamt nokkrum öðrum leikmönnum Manchester United, hafi fundað með þáverandi þjálfari Ralf Rangnick til að finna lausnir á slakri spilamennsku liðsins. Ronaldo stakk upp á því að setja Harry Maguire, fyrirliða liðsins, á varamannabekkinn.

Á vef The Athletic er farið ítarlega yfir endurkomu Cristiano Ronaldo til Manchester United en nú er slétt ár síðan hann gekk aftur í raðir félagsins. Portúgalinn byrjaði ágætlega en fljótlega fataðist honum sem og liðinu flugið.

Nú er staðan þannig að hann kemst ekki í byrjunarliðið og hefur verið orðaður við nær öll félög Evrópu sem leika í Meistaradeildinni. Þar virðist metnaður hans liggja en ekkert af félögunum sem þar leika hafa boðið í leikmanninn og virðist sem hann verður áfram í Manchester í ár til viðbótar.

Samkvæmt frétt The Athletic þá fór Ronaldo á fund með Rangnick er ekkert gekk upp hjá Man United undir lok tímabils. Með honum í för voru Raphaël Varane og Paul Pogba. Það var þó Ronaldo sem talaði.

Hann sagðist þurfa mann með sér í fremstu víglínu til að ná að blómstra. Stakk hann upp á því að hann og Edinson Cavani myndu byrja saman frammi. Hin hugmynd hans var að bekkja fyrirliða liðsins Harry Maguire en sá átti ekki gott tímabil. Fjarvera Maguire, fyrirliða liðsins, hefði þýtt að fyrirliðabandið hefði farið til Ronaldo.

Rangnick tók skýrt fram að sér þætti óþægilegt að ræða þetta þar sem Maguire var ekki á fundi þeirra. Varane og Pogba báðust strax afsökunar en Ronaldo virðist ekki hafa verið á sama máli.

Maguire hélt sæti sínu og Cavani, sem er nú farinn frá félaginu – líkt og Pogba, var nær aldrei leikfær svo þeir náðu ekki að byrja marga leiki saman.

Erik Ten Hag hefur úr töluvert fleiri valmöguleikum að velja í fremstu línu en Rangnick og virðist sem Ronaldo eigi ekki upp á pallborðið. Þjálfarinn hefur þó tekið skýrt fram að framherjinn hafi blómstrað undir hverjum þjálfaranum á fætur öðrum í fleiri ár.

Af hverju ætti hann því ekki að geta gert það undir stjórn Ten Hag?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×