Enski boltinn

Fulham að fá fyrrverandi leikmann Arsenal og Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Willian náði ekki að heilla hjá Arsenal, en fær nú annað tækifæri í ensku úrvalsdeildinni.
Willian náði ekki að heilla hjá Arsenal, en fær nú annað tækifæri í ensku úrvalsdeildinni. Vísir/Getty

Brasilíski miðjumaðurinn Willian er að öllum líkindum á leið í ensku úrvalsdeildina á ný eftir árs fjarveru. Þessi fyrrverandi leikmaður Arsenal og Chelsea er nú líklega á leið til Fulham.

Willian hefur undanfarið ár leikið með uppeldisfélagi sínu Corinthians eftir það sem mætti kalla mishepnaða veru hjá Arsenal.

Þessi 34 ára miðjumaður fékk þó samningi sínum hjá Corinthians rift eftir að hann sagði frá því að honum og fjölskyldu hans hafi borist líflátshótanir á samfélagsmiðlum.

Willian er nú á leið í læknisskoðun hjá enn einu Lundúnaliðinu, en hann mun að öllum líkindum ganga í raði Fulham á næstu dögum. Vegna samningsstöðu leikmannsins gæti hann orðið leikmaður félagsins eftir að félagsskiptaglugginn lokar síðar í vikunni.

Willian lék í sjö ár í treyju Chelsea áður en hann gekk í raðir Arsenal. Fyrir Chelsea lék hann 234 deildarleiki og vann fimm titla, þar af tvo Englandsmeistaratitla. Hann færði sig svo um set í Lundúnum og skrifað undir þriggja ára samning við Arsenal árið 2020, en samningi hans við félagið var rift ári síðar þar sem hann náði ekki að setja mark sitt á liðið.

Þá var Willian fastamaður í brasilíska landsliðinu frá árinu 2011, en á átta ára landsliðsferli sínum lék hann 70 landsleiki og skoraði í þeim níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×