Enski boltinn

Saint-Maximin hetja Newcastle | West Ham sótti sín fyrstu stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Allan Saint-Maximin reyndist hetja Newcastle í dag.
Allan Saint-Maximin reyndist hetja Newcastle í dag. Simon Stacpoole/Offside/Offside via Getty Images

Allan Saint-Maximin reyndist hetja Newcastle þegar hann bjargaði stigi fyrir liðið er Newcastle og Wolves skildu jöfn í ensku úrvalsdeildinni í dag, 1-1. Á sama tíma vann West Ham 0-1 útisigur gegn Aston Villa og sótti þar með sín fyrstu stig á tímabilinu.

Ruben Neves kom Úlfunum yfir gegn Newcastle á 38. mínútu eftir stoðsendingu frá Goncalo Guedes og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Raul Jiminez hélt svo að hann hefði tryggt heimamönnum í Wolves sigurinn þegar hann kom boltanum í netið á 81. mínútu. Markið hins vegar dæmt af eftir skoðun myndbandsdómara þar sem Pedro Neto reyndist brotlegur í aðdraganda marksins.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma jafnaði Allan Saint-Maximin svo metin fyrir gestina með gullfallegu skoti fyrir utan teig og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Newcastle er nú með sex stig í sjöunda sæti deildarinnar eftir fjóra leiki, fjórum stigum meira en Wolves sem situr í 19. sæti.

Í leik Aston Villa og West Ham tryggði Pablo Fornals gestunum í West Ham sigurinn með marki á 74. mínútu eftir stoðsendingu frá Declan Rice. Fyrsti sigur West Ham á tímabilinu því staðreynd og fyrstu stig liðsins komin í hús.

West Ham situr nú í 16. sæti deildarinnar með þjú stig, jafn mörg og Aston Villa sem situr sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×