Umfjöllun og viðtöl: ÍA-ÍBV 2-1| Skagamenn með langþráðan sigur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
ÍA þarf sigur og það sem fyrst.
ÍA þarf sigur og það sem fyrst. Vísir/Diego

ÍA vann langþráðan sigur á ÍBV í dag er liðin mættust í 18. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. ÍA sem hefur tapað sjö leikjum í röð mætti tvíeflt til leiks í dag og var það Skagamaðurinn ungi, Haukur Andri Haraldsson sem tryggði ÍA sigur á 88. mínútu. Lokatölur 2-1.

ÍBV átti fyrsta færi leiksins. Atli Hrafn Andrason keyrði upp kantinn og gaf fyrir á Arnar Breka Gunnarssons sem var í barningi inn í teig en nær að koma boltanum á Guðjón Erni Hranfkelsson sem á hörkuskot en Árni Marinó Einarsson ver.

Skagamenn gáfu þá í og áttu fyrstu tíu mínútur leiksins. Þeir fengu fimm hornspyrnur í röð og í hverri einustu myndaðist darraðadans í teig ÍBV en að lokum handsamaði Guðjón Orri Sigurjónsson boltann og kom honum aftur í leik.

ÍBV gaf í og átti hvert dauðafærið á fætur öðru en á 30. mínútu keyrði Gísli Laxdal upp kantinn og tekur skotið sem Guðjón Orri ver en boltinn endar hjá Kristian Ladewig Lindberg sem kemur boltanum framhjá Guðjóni Orra og staðan því 1-0 fyrir ÍA. Hálfleikstölur 1-0 fyrir heimamönnum þegar liðin gengu til klefana.

Eyjamenn mættu sprækir til leiks í seinni hálfleik og þá sérstaklega Andri Rúnar Bjarnason sem gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn fyrir Eyjamenn þegar aðeins 25 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik eftir stoðsendingu frá Arnari Breka Gunnarssyni.

Það gerðist ekki mikið um miðbik seinni hálfleiksins og skiptust liðin á að vera með boltann. Eyjamenn þó aðeins meira. Það var svo á 88. mínútu þegar Skagamenn keyra í skyndisókn. Árni Salvar Heimisson kom boltanum á Hauk Andra Haraldsson sem renndi boltanum í markið og tryggir ÍA 2-1 sigur. 

Afhverju vann ÍA?

Þrátt fyrir að hafa ekki átt drauma fyrri hálfleik fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar og svo markið, fá svo mark beint í andlitið í byrjun seinni þá stigu þeir upp og tókst að tryggja þennan sigur. Þeir voru duglegir að keyra í bakið á ÍBV þegar Eyjamenn voru nánast búnir að tjalda við teig ÍA og skilaði það sigri. 

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá Skagamönnum er ekki erfitt að gefa Hauki Andra Haraldsyni þetta. Hann var mjög góður í dag, líflegur og svo skemmdi ekki að þessi ungi leikmaður skoraði mark. 

Hjá ÍBV var Arnar Breki Gunnarsson gríðarlega öflugur og bjó til fullt af færum. Andri Rúnar Bjarnason mætti vel stemmdur í seinni hálfleik og skoraði strax. 

Hvað gekk illa?

Það er hægt að segja að bæði mörk ÍA hafi komið úr hálfgerðum skyndisóknum og voru Eyjamenn þá kannski heldur værukærir og ekki alveg að koma til baka. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 28. ágúst kl 14:00 fá Eyjamenn Stjörnuna í heimsókn. Sama dag kl 17:00 sækir ÍA Keflavík heim. 

Hermann Hreiðarsson: „Við vanmetum engan“

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var svekktur í leikslokVísir/Hulda Margrét

„Þetta var svona skrap, þetta hefði getað dottið báðu megin. Við vorum ekki alveg nógu góðir í dag, það vantaði smá öryggi að spila aðeins meira,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, svekktur eftir 2-1 tap á móti ÍA í dag. 

Aðspurður hvort ÍBV hafi vanmetið ÍA vegna gengis ÍA í deildinni sagði Hermann þetta:

„Við vanmetum engan. Við höfum ekkert efni á því, við vitum hvar við erum staddir og það er ekki í kortunum hjá okkur. Svona er þetta bara stundum, maður er ekki alveg on í öllu. Margt jákvætt og þetta voru svekkjandi úrslit.“

Það tók ÍBV ekki nema 25 sekúndur að skora í seinni hálfleik og sagði Hermann að þeir hafi breytt upplaginu í hálfleiknum. 

„Við færðum aðeins til á miðjunni og vorum að reyna sækja meira upp kantana og koma okkur aftur fyrir þá. Eins og ég segi, það vantaði aðeins flæði, þessa auka sendingu.“

Þrátt fyrir tap í dag telur Hermann að ÍBV komi tvíelft í næsta leik. 

„Við vitum alveg að við komum alltaf tvíelfdir til baka og höfum gert það allt tímabilið. Við erum saman í þessu og vinnum saman og töpum saman. Það er fullt eftir ennþá þannig við erum ennþá brattir, það er engin spurning. Við söknuðum lykil leikmanna í dag og það var sárt.“

Haukur Andri Haraldsson: „Manni er búið að vera dreyma um þetta síðan maður var lítill“

Haukur Andri Haraldsson, leikmaður ÍA, var frábær í dagÍA

„Mér getur ekki liðið betur. Að skora þetta mark í lokin. Maður finnur ekki betri tilfinningu en það hjá heimafélaginu sínu. Þetta er búið að vera draumur. Ég er ánægður með markið og að fá þrjú stig í pokann, það er það sem við þurftum eftir þennan tíma án sigurs,“ sagði Haukur Andri Haraldsson, leikmaður ÍA, sem tryggði Skagamönnum 2-1 sigur á ÍBV í dag. 

„Þetta gerist ekki betra en það. Manni er búið að vera dreyma um þetta síðan maður var lítill og loksins er sá draumur að rætast þannig ég get ekki verið ánægðri.“

Haukur sem er ungur Skagamaður, fæddur 2005 hefur fengið traustið í síðustu leikjum og sýndi það og sannaði að hann á heima í liðinu í dag. 

„Ég þakka traustið og vonandi fæ ég að spila meira eftir þetta.“

Haukur er bjartsýnn á framhaldið hjá ÍA og hefur trú á því að ef þeir geti sótt stigin í svona leikjum eigi þeir möguleika á að halda sér uppi. 

„Ég er mjög bjartsýnn upp á framhaldið. Ef við eigum svona lélegan leik en getum samt unnið þá er það jákvætt og þá getum við alveg haldið okkur uppi.“


Tengdar fréttir

„Þetta er langþráður sigur“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var gríðarlega sáttur með frammistöðuna hjá sínum mönnum eftir 2-1 sigur á ÍBV í dag. Skagamenn komust yfir í fyrri hálfleik en ÍBV tókst að jafna í þeim seinni. Það var svo Skagamaðurinn ungi, Haukur Andri Haraldsson sem tryggði ÍA sigur með marki á 88. mínútu. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira