Enski boltinn

Atlético neitaði rúmlega á­tján milljarða til­boði Man United í Félix

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
João Félix í leik gegn Manchester City á síðustu leiktíð.
João Félix í leik gegn Manchester City á síðustu leiktíð. David Ramos/Getty Images)

Atlético Madríd afþakkaði pent tilboð Manchester United í Portúgalann João Félix. Tilboðið hljóðaði upp á 130 milljónir evra eða rúmlega 18 milljarða íslenskra króna. Atlético keypti leikmanninn af Benfica árið 2019 á 113 milljónir evra.

Man United er orðað við nær alla leikmenn sem virðast yfir höfuð geta sparkað í bolta þessa dagana. Félix er einn af tólf leikmönnum sem hafa verið orðaður við félagið á undanförnum þremur dögum.

Það var spænski miðillinn AS sem greindi fyrst frá en síðan hafa aðrir miðlar einnig staðfest að Man United hafi lagt fram tilboð í þennan 22 ára gamla Portúgala. Það virðist sem Erik ten Hag vilji skipta á 37 ára gömlum Portúgala fyrir einn talsvert yngri en það er talið nær öruggt að Cristiano Ronaldo muni yfirgefa Man United fyrir gluggalok.

Man United hefur eins og alþjóð veit hafið nýtt tímabil hörmulega og samkvæmt fréttum frá Bretlandseyjum vill Erik ten Hag þrjá nýja leikmenn fyrir gluggalok. Raunar vill hann fá þá áður en Man Utd mætir Liverpool á mánudaginn 22. ágúst en það verður að teljast einstaklega ólíklegt.

Portúgalinn ungi byrjaði nýtt tímabil í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, af krafti en hann lagði upp öll þrjú mörk Atlético í 3-0 sigri á Getafe. Álvaro Morata, annar leikmaður sem hefur verið orðaður við Man United, skoraði tvívegis í leiknum.

Félix er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa Atlético fyrir 350 milljónir evra. Man United er hins vegar ekki alveg tilbúið að greiða þá upphæð.


Tengdar fréttir

Man United í­hugar að fá Pulisic á láni

Forráðamenn Manchester United halda áfram að draga nöfn upp úr hatti og íhuga hvort félagið ætti að reyna sækja þann leikmann sem kemur upp hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×