Enski boltinn

Glazer-fjölskyldan til í að selja hlut í Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Manchester United hafa byrjað leiktíðina afar illa.
Leikmenn Manchester United hafa byrjað leiktíðina afar illa. Getty/Ash Donelon

Eigendur Manchester United, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, hafa rætt um það að fá inn nýjan hluthafa en vilja þó ekki missa meirihlutastöðu sína.

Þetta kemur fram í frétt hins virta Bloomberg í dag. Miðillinn segist hafa innanbúðarheimildir fyrir því að Glazer-fjölskyldan sé opin fyrir því að selja hlut í enska knattspyrnufélaginu en pressan eykst sífellt á eigendurna með versnandi árangri og stöðu þessa vinsæla félags.

Bloomberg segir að viðræður séu í gangi en það þýði þó ekki endilega að Glazer-fjölskyldan muni á endanum selja nokkuð af sínum hlutum í Manchester United. Þá sé ljóst að fjölskyldan vilji ekki missa meirihluta. Fulltrúar hennar og United neituðu að tjá sig um málið.

Gengi hlutabréfa í Manchester United hækkaði mest um 7,6% í fyrstu viðskiptum í New York í dag en félagið er metið á um 2,2 milljarða Bandaríkjadala.

United hefur byrjað nýja leiktíð undir stjórn nýja stjórans Eriks ten Hag skelfilega. Ef fram heldur sem horfir verður því liðinn áratugur næsta vor frá síðasta Englandsmeistaratitli United. Þrátt fyrir það er félagið eitt það þekktasta og sigursælasta í sögu heimsfótboltans, með til að mynda 20 Englandsmeistaratitla og þrjá Evrópumeistaratitla.

Stuðningsmenn Manchester United virðast flestir vilja losna við Glazer-fjölskylduna sem fyrst.Getty

Bloomberg segir ljóst að margir stórir fjárfestar muni hugsa sér gott til glóðarinnar að fjárfesta í United, líkt og þegar Roman Abramovich seldi Chelsea fyrr á þessu ári. 

Elon Musk, eigandi Tesla, grínaðist með það að ætla að kaupa United en var fljótur að leiðrétta það.

Glazer-fjölskyldan eignaðist United árið 2005 og skuldsetti félagið um leið verulega, við litla hrifningu stuðningsmanna þess.

Óánægja stuðningsmanna hefur síðan aukist, ekki síst frá því að Sir Alex Ferguson steig frá borði árið 2013 eftir að hafa stýrt liðinu til síns tuttugasta Englandsmeistaratitils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×