Íslenski boltinn

For­­maður knatt­spyrnu­deildar Víkings ó­­sáttur: „Eins ó­­í­­þrótta­­manns­­legt og það verður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik gærkvöldsins.
Úr leik gærkvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Það var töluverður hiti í leik Breiðabliks og Víkings í Bestu deild karla í gærkvöld enda um að ræða liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. Alls fóru tíu gul spjöld á loft, sem og eitt rautt, en þá var frammistaða boltasækjara leiksins einnig til umræðu.

Leikur gærkvöldsins var gríðarlega mikilvægur fyrir stöðu mála í deildinni en með sigri hefði Breiðablik getað náð einkar góðri forystu á toppi deildarinnar. Liðið er vissulega enn með pálmann í höndum sér en Víkingar eiga leik til góða og gætu sett pressu á toppliðið fari svo að hann vinnist.

Leikurinn í gær var litaður af því að bæði lið voru örþreytt eftir gríðarlegt álag undanfarnar vikur og erfiða Evrópuleiki á fimmtudaginn var. Það lýsti sér kannski best í því að Víkingar þurftu að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla á meðan Breiðablik missti einnig mann af velli og þurfti að gera aðra í hálfleik.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, nefndi þreytumerkin í viðtali eftir leik og þá sérstaklega að menn hefðu verið seinir í tæklingar og því um líkt vegna þess. Það sást á fjölda gulra spjalda sem fór á loft og þá fékk Damir Muminovic sitt annað gula spjald er hann virtist renna á vellinum.

Þrátt fyrir allt þetta þá snerist umræðan á samfélagsmiðlinum Twitter um eitthvað allt annað, þar voru krakkarnir sem sækja boltann er hann fer út af í fyrirrúmi. Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings lét eftirfarandi ummæli falla:

„Að nota boltasækjara á þennan hátt er eins óíþróttamannslegt og það verður. Vona að menn sem fyrirskipa þetta séu stoltir af sér.“

Hörður Ágústsson, sem hefur meðal annars verið fjölmiðlafulltrúi á leikjum Víkings í sumar, svaraði: „Hrikalega vandræðalegt fyrir lið í Bestu Deildinni að haga sér svona.“

Þetta virðist hafa farið í taugarnar á einhverju stuðningsfólki þar sem bent hefur verið á að hinir ýmsu aðilar hafi látið miður falleg orð falla í stúkunni í garð þeirra krakka sem sinna starfi boltasækjara.

„Tilgangslaust þetta boltasækjara-dæmi í Bestu. Krökkunum sagt að haga sér á þann hátt að mótherji heimaliðs tapi á að hafa þá og fá í staðinn hótanir um barsmíðar og orðbragð sem ekki er hafandi eftir, þetta eru 9-12 ára gömul börn! …breytingar takk,“ segir Stebba Sigurðardóttir á Twitter-síðu sinni.

Það er spurning hvort brugðist verði við athæfi sem þessu en Orri Sigurður Ómarsson, leikmaður Vals, svaraði Stebbu og stakk einfaldlega upp á því að sama leið yrði farin og þegar kórónufaraldurinn lét sem hæst. Þá var boltunum einfaldlega komið fyrir á keilum meðfram vellinum og gæslumenn leiksins sáu um að skila boltum þangað sem fóru út af.

Eftir leik gærkvöldsins er Breiðablik er á toppi Bestu deildarinnar með 39 stig eftir 17 leiki. Þar á eftir kemur KA með 33 og svo Víkingur með 31 en Íslandsmeistararnir eiga leik til góða.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Sjáðu mörkin og rauða spjaldið úr stór­leik Breiða­bliks og Víkings

Breiðablik og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld, mánudag. Um er að ræða topplið deildarinnar og svo ríkjandi Íslands- og bikarmeistara. Þá fór rautt spjald á loft í síðari hálfleik. Mörkin og rauða spjaldið má sjá hér að neðan.

„Jafntefli er betra fyrir okkur en þá“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sagði að jafnteflið gegn Víkingi, 1-1, kæmi sínum mönnum betur en Íslands- og bikarmeisturunum.

Stór­leikur sem bæði lið verða að vinna

Í kvöld mæta Íslands og bikarmeistarar Víkings á Kópavogsvöll og mæta þar toppliði Bestu deildar karla. Um er að ræða þau tvö lið sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra og voru framan af tímabili talin líklegust til afreka í sumar. Nú er komið annað hljóð í landann og þurfa bæði lið á sigri að halda þar sem bæði KA og Valur virðast allt í einu ætla að blanda sér í toppbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×