Erlent

For­múlu­bíll á hrað­braut í Tékk­landi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem er í dreifingu á Twitter.
Skjáskot úr myndbandinu sem er í dreifingu á Twitter.

Formúlubíll sem brunaði fram hjá ökumönnum á D4-hraðbrautinni í Tékklandi er ekki keppandi í Formúlu 1 líkt og marga grunaði þegar myndband af bílnum fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Um er að ræða bíl í einkaeigu sem hefur áður valdið usla.

Myndband af Ferrari formúlubíl á D4-hraðbrautinni í Tékklandi fór í dreifingu á Twitter í vikunni og töldu einhverjir að um væri að ræða ökumann úr Formúlu 1. Hann væri mögulega að taka upp auglýsingu eða sjónvarpsþátt.

Bíllinn er merktur með styrktaraðilum Ferrari í formúlunni og með tölustafnum 7 eins og var á bíl Finnans Kimi Raikkonen þegar hann keyrði fyrir Ferrari. Raikkonen er síðasti ökuþór Ferrari til að vinna Formúlu 1 kappaksturinn en það gerði hann árið 2007.

Samkvæmt The Supercar Blog þá er um að ræða gamlan GP2 bíl sem notaður var á árunum 2008-2010. GP2 þekkist í dag sem Formúla 2 en bílarnir þar eru um það bil helmingi kraftminni en þeir sem notaðir eru í Formúlu 1.

Alltaf með hjálm

Lögreglan í Tékklandi rannsakar nú myndbandið en þetta er ekki í fyrsta sinn sem myndbönd af ökumanninum birtast á samfélagsmiðlum. Það hefur þó reynst lögreglunni að sekta ökumanninn en hann er ávallt klæddur í kappakstursgalla og með hjálm svo ekki sé hægt að bera kennsl á hann. Lögreglan veit hver eigandi bílsins er enn hann heldur því fram að þetta sé ekki hann sem er að keyra á myndböndunum.

Ef lögreglunni tekst að sanna hver ökumaðurinn á myndbandinu er á hann von á háum sektum en ekki er löglegt að keyra slíkan bíl á götum úti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×