Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur-Stjarnan 6-1 | Mörkunum rigndi á Hlíðarenda

Sverrir Mar Smárason skrifar
Aron Jóhannsson snýr hér boltann laglega í mark Stjörnunnar. 
Aron Jóhannsson snýr hér boltann laglega í mark Stjörnunnar.  Vísir/Diego

Valur vann sannfærandi 6-1 sigur þegar Stjarnan kom í heimsókn á Origo-völlinn að Hlíðarenda í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

Leikurinn fór ansi rólega af stað og liðin byrjuðu á því að reyna að þreifa á hvoru öðru. Það dró svo til tíðinda á 19. mínútu þegar Emil Atlason slapp í gegn og Sebastian Hedlund felldi hann innan teigs. Vítaspyrna dæmd og Emil fór sjálfur á punktinn en Frederik Schram, markvörður Vals, varði frábærlega frá honum. Upp úr því fengu Stjörnumenn tvö horn í röð og úr því síðara kom fyrsta mark leiksins.

Guðmundur Baldvin Nökkvason sendi hornspyrnuna á fjærstöng þar sem Elís Rafn skallaði boltann aftur fyrir markið. Haukur Páll, fyrirliði Vals, stökk upp og ætlaði að skalla boltann frá en tókst ekki annað en að skalla yfir sig og í netið. Sjálfsmark skráð og Stjörnumenn komnir yfir.

Stjörnumenn fagna marki sínu í kvöld.Visir/ Diego

Eftir markið tók við eitthvað sem mætti í raun kalla Valssýningu. Valsmenn tóku algjörlega yfir leikinn og áttu eftir að ganga frá Stjörnumönnum. Patrick Pedersen jafnaði metin á 30. mínútu eftir sendingu frá Ágústi Eðvaldi sem hafði viðkomu í varnarmanni Stjörnunnar. Patrick kláraði vel af stuttu færi framhjá Haraldi í markinu.

Stuttu síðar eða á 35. mínútu var staðan orðin 2-1. Orri Hrafn sendi þá Tryggva Hrafn í gegn upp vinstri kantinn. Tryggvi með góðan sprett og síðar sendingu út í teiginn á Aron Jó sem tók vel við boltanum og skoraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið.

Aron Jóhannsson léttur eftir frábært mark sitt.Visir/ Diego

Valur var enn ekki búið í fyrri hálfleiknum því þríeykið Tryggvi, Aron og Patrick unnu saman að þriðja marki Vals á 42. mínútu. Aron með sendingu á Tryggva sem hafði Patrick með sér gegn einum varnarmanni. Tryggvi lagði boltann til hliðar á Patrick sem kláraði færið vel. Hálfleikstölur 3-1.

Patrick leggur boltann framhjá Haraldi og kemur Val í 3-1.Visir/ Diego

Stjörnumenn höfðu þurft að gera breytingu á byrjunarliðinu eftir upphitun því Adolf Daði meiddist og inn kom Daníel Finns. Honum var svo skipt útaf í hálfleik ásamt Daníel Laxdal en inn komu Einar Karl og Ólafur Karl Finsen.

Einar Karl hafði verið inná í 3 mínútur þegar hann sendi slæma sendingu til baka sem Patrick Pedersen komst inn í. Patrick kom boltanum á Ágúst Eðvald sem sendi sendingu meðfram vítateigslínunni þar sem Aron Jó lét boltann fara milli fóta sér á Tryggva Hrafn sem skoraði sitt fyrsta mark í leiknum með góðu skoti meðfram jörðu og út við stöng. Síðari hálfleikur nýhafinn og Valsmenn komnir aftur á bragðið.

Tryggvi Hrafn var svo aftur á ferðinni á 65. mínútu þegar Valsmenn fengu aukaspyrnu fyrir utan vítateig Stjörnunnar. Tryggvi, sem var snöggur að sækja boltann og stilla sér upp, fékk traustið og þakkaði fyrir það með fallegasta marki leiksins. Boltinn yfir vegginn og datt rétt undir samskeytin. Valsmenn að ganga frá Stjörnunni 5-1.

Tryggvi Hrafn var snöggur að stilla sér upp við boltann áður en hann skoraði svo með frábærri spyrnu.Visir/ Diego

Aðeins mínútu síðar var staðan orðin 6-1. Sindri Þór og Björn Berg Bryde ákváðu að leika sér að eldinum með þríhyrningsspili út úr vörninni. Haukur Páll tók boltann af Birni Berg, kom honum á Aron Jó sem var í þeirri lúxus stöðu að geta valið hvort hann vildi að Tryggvi eða Patrick myndi skora þrennu. Aron valdi að gefa boltann á Patrick sem skoraði með góðu skoti á nærstöng. Valsmenn komnir í 6-1.

Patrick stekkur upp og fagnar þrennu sinni.Visir/ Diego

Það sem eftir lifði leiks héldu ungir leikmenn Stjörnunnar þó áfram að reyna að sækja mark en það voru þó Valsmenn sem fengu tvö bestu færin. Ágúst Eðvald og Arnór Smárason fengu sitthvort tækifærið einir gegn Haraldi Björnssyni en Haraldur var snöggur út og lokaði frábærlega á þá báða.

Lokatölur í ótrúlegum leik 6-1 sigur Vals á Stjörnunni. Stjarnan heldur betur rifin niður á jörðina eftir að hafa unnið Breiðablik í síðustu umferð 5-2.

Valsmenn fara með þessum þriðja sigri í röð fram úr Stjörnunni í deildinni og upp að hlið Víkings í þriðja sæti deildarinnar.

Af hverju vann Valur?

Eftir að hafa lent undir þá vöknuðu þeir bara. Sömu sóknarmenn hafa verið að spila sig saman í síðustu sigrum og það small allt hjá þeim í dag. Hraðinn og gæðin í liðinu skein í gegn auk þess sem leikmenn virtust virkilega njóta sín. Á svona degi vinnur Valur hvaða lið sem er, allavega á Íslandi.

Hverjir voru bestir?

Þríeykið fremst hjá Val. Tryggvi Hrafn gerði tvö mörk og lagði upp tvö. Patrick Pedersen skoraði þrennu og kom að fleiri mörkum. Aron Jó skoraði og lagði upp auk þess að eiga að minnsta kosti tvær lykilsendingar sem leiddu til marks.

Ágúst Eðvald átti flottan leik sömuleiðis, lagði upp tvö mörk og var lúsiðinn. Einnig fannst mér allt annað að sjá til Orra Hrafns sem kom vel inn í liðið í fjarveru Guðmundar Andra sem tók út leikbann.

Hvað mætti betur fara?

Stjörnumenn eru með ungt lið og hafa ekki náð að vera nógu stabílir á tímabilinu.

Uppspilið í dag var ansi tæpt á köflum og að minnsta kosti þrjú mörk Vals komu eftir hápressu á vörn Stjörnunnar.

Hvað gerist næst?

Valsmenn mæta Víkingum í ansi stórum leik mánudaginn 22. ágúst kl. 19:15 í Víkinni.

Daginn áður fá Stjörnumenn KA í heimsókn á Samsung völlinn í sömuleiðis risa leik kl. 17:00.

Ágúst Gylfason: Vonbrigðin eru mikil

Ágúst var svekktur með frammistöðu síns liðs í kvöld.Visir/ Diego

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum virkilega svekktur með leikinn í kvöld.

„Vonbrigðin eru mikil. Við vorum bara lélegir í dag. Það er eiginlega bara eitt orð yfir það. Það gekk allt upp hjá Völsurum og við vorum nokkuð gjafmildir þannig að þeir gengu bara á lagið og kláruðu þetta með sóma. Við þurfum að rýna betur í þetta og sjá hvað fór úrskeiðis,“ sagði Ágúst Gylfason.

Helgi Sigðursson: Alvöru lið þau bogna ekki þegar eitthvað gengur yfir þau

Helgi Sig var hins vegar yfir sig ánægður.Visir/ Diego

Helgi, aðstoðarþjálfari Vals, var hins vegar gífurlega ánægður með leik sinna manna.

„Við erum hæstánægðir með þetta hjá strákunum og getum ekki annað en verið bara hrikalega ánægðir. Sérstaklega að fá þarna mark á sig í byrjun og sýna þennan sterka karakter sem við erum með í liðinu með því að koma til baka. Frábær frammistaða hjá strákunum,“ sagði Helgi.

„Alvöru lið þau bogna ekki þegar eitthvað gengur yfir þau. Um leið og fyrsta markið kom þá vissi ég að Valsliðið var komið í gang. Þessi 6-1 niðurstaða hefði getað verið mun stærri. Frábært að skora sex mörk gegn jafn sterku liði og Stjarnan er. Að fá menn á borðið eins og Tryggva Hrafn, Aron og svo Patrick með þrennuna. Síðan allir að leggja allt á sig í varnarleiknum,“ sagði Helgi.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.