Enski boltinn

Guardiola: Erling Haaland leysir ekki öll vandamál Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fær fimmu frá Pep Guardiola eftir að hafa skorað tvö mörk á móti West Ham á London Stadium.
Erling Haaland fær fimmu frá Pep Guardiola eftir að hafa skorað tvö mörk á móti West Ham á London Stadium. AP/Frank Augstein

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, ætlar sér að gera Norðmanninn Erling Haaland að betri leikmanni sem eru ógnvænlegar fréttir fyrir hin liðin í ensku úrvalsdeildinni.

Haaland byrjaði á því að skora tvö mörk strax í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni þegar Manchester City vann 2-0 útisigur á West Ham.

Einhverjir höfðu gagnrýnt Haaland fyrir klúður sitt í leiknum um Samfélagsskjöldinn á móti Liverpool en það heyrist væntanlega ekki mikið í þeim eftir frammistöðu stráksins um helgina.

„Allt liðið var frábært en það Erling skoraði sín fyrstu mörk var mjög gott fyrir bæði hann og okkur. Hann er mikil ógn fyrir okkur en hann leysir ekki öll vandamál Manchester City,“ sagði Pep Guardiola.

„Hann mun bæta einhverju við okkar lið en ef við ætlum bara að treysta á hann þá erum við að gera mistök,“ sagði Guardiola sem leyfði sér aðeins að skjóta á þá sem gerði mikið úr klúðri hans á móti Liverpool.

„Fyrir einni viku þá átti hann ekki að geta aðlagast ensku úrvalsdeildinni og núna er hann allt í einu kominn í hóp með Thierry Henry, Alan Shearer og Cristiano Ronaldo. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Tvö mörk og umræðunni er lokið. Hann skoraði mörk í Salzburg, Dortmund og hann getur gert það líka hér.,“ sagði Guardiola.

„Hann kom hingað í fimm ár og vonandi verður hann hjá okkur þann tíma eða jafnvel lengur. Hann getur verið mjög góður fyrir okkur og við getum ýtt honum áfram og hjálpað honum við að bæta við sinn leik. Með því getur hann orðið betri leikmaður ekki bara maðurinn sem skorar mörkin,“ sagði Guardiola.

„Ég þekki hann enn ekki nógu vel og við þurfum því tíma. Ég veit hins vegar hvernig hann réði við þá gagnrýni sem hann fékk í vikunni og hann var mjög rólegur. Ég veit aftur á móti ekki hvernig hann tekur hrósi en við sjáum það núna,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×