Umfjöllun og viðtöl: FH 0-3 KA | KA eykur kvalir Hafnfirðinga

Atli Arason skrifar
KA-ingar fagna þriðja markinu á meðan Gunnar Nielsen horfir til himna
KA-ingar fagna þriðja markinu á meðan Gunnar Nielsen horfir til himna Hulda Margrét

FH-ingar eru búnir að skrá sig inn í fallbaráttu Bestu-deildarinnar eftir 0-3 tap gegn KA á heimavelli í kvöld. FH bíður enn þá eftir fyrsta sigur undir stjórn Eiðs Smára en liðið hefur nú leikið sjö leiki undir stjórn Eiðs án sigurs.

Leikurinn í kvöld fór rólega af stað og það var fátt um fína drætti þangað til að Vuk Óskar Dimitrijevic, leikmaður FH, átti fyrstu marktilraun leiksins á 13. mínútu, tilraun sem Kristijan Jajalo, markvörður KA, varði vel.

Bæði lið sóttu til skiptis framan af fyrri hálfleik áður en gestirnir tóku nokkurn veginn stjórnina og sóttu á mark FH-inga þangað til að boltinn endaði í netinu á 25. mínútu, þegar Hallgrímur Mar átti skot í fjærhornið eftir undirbúning Nökkva Þeys.

FH-ingar voru ekki tilbúnir að gefast upp og áttu örfá færi til að jafna leikinn. Á þeim tímapunkti lágu KA menn lágt til baka og beittu hröðum skyndisóknum þegar þeir unnu boltann.

Það var þó ekki skyndisókn gestanna sem bjó til annað mark leiksins heldur yfirvegað uppspil. KA-ingar unnu boltann af FH-ingum aftarlega á vellinum og léku upp vinstri vænginn þar sem boltinn gekk vel manna á milli. Að lokum var það Daníel Hafsteinsson sem átti fyrirgjöf við endalínuna vinstra megin, laus fyrirgjöf sem vörn FH átti að eiga auðveldlega við. Elfar Árni Aðalsteinsson, framherji KA var þó á tánum og kom sér á milli miðvarða FH og fyrir framan Gunnar Nielsen, markvörð FH. Elfar náði að koma snertingu á boltann á undan Guðmundi Kristjánssyni, varnarmanni FH, sem braut á Elfari og gestunum dæmd vítaspyrna.

Nökkvi Þeyr setti boltann á punktinn og sendi Gunnar í vitlaust horn og KA þá komið í tveggja marka forystu.

FH-ingar réðu ekkert við Nökkva Þey sama hvað þeir reynduHulda Margrét

Eftir síðara mark KA var bara eitt lið á vellinum þar sem FH-ingar virtust hreinlega ekki vilja spila meiri fótbolta og gestirnir fóru með tveggja marka forystu inn í leikhléið.

Það var þó allt annað FH lið sem kom út í síðari hálfleik. FH-ingar urðu allt í einu sprækir og baráttuglaðir og virtust líklegir að skora þriðja mark leiksins. Kristijan Jajalo, markvörður KA, þurfti nokkrum sinnum að hafa sig allan við að verja mark gestanna og gerði vel í því. Eftir látlausar sóknir heimamanna án árangurs voru það þó gestirnir sem kláruðu þreytta FH-inga á 83. mínútu.

Hallgrímur Jónsson, aðstoðarþjálfari KA, stóð vaktina ásamt Igor Kostic í fjarveru Arnars GrétarssonarHulda Margrét

Hinn belgíski Bryan Van Den Bogaert, vinstri bakvörður KA, hreinsaði þá boltann í burtu eftir fyrirgjöf Haralds Einars Ásgrímssonar, vinstri bakvarðar FH. Hreinsun Van Den Bogaert féll beint fyrir lappir Nökkva Þeys við miðlínuna. Hann og Daníel Hafsteinsson brunuðu í skyndisókn þar sem boltinn endaði hjá Daníeli við endalínu FH á hinum enda vallarins. Daníel kom boltanum til baka á Van Den Bogaert sem átti þríhyrnings spil við Nökkva og Belginn endaði inn í vítateig FH og átti ekki í vandræðum að koma boltanum yfir Gunnar Nielsen í marki FH af stuttu færi. 

Reyndist þetta vera síðasta markverða atvikið í leiknum og gestirnir unnu góðan sigur og fara með þrjú stig með sér heim til Akureyrar.

Afhverju vann KA?

KA spilaði öflugan varnarleik sem FH-ingar náðu ekki að brjóta á bak aftur. Ásamt öflugum varnarleik nýttu gestirnir marktækifæri sín afar vel sem varð til þess að FH-ingar hengdu haus.

Hverjir stóðu upp úr?

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði eitt og lagði upp hin tvö. Heimamenn réðu ekki við hann í kvöld.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru enn þá með í bikarkeppninni en 8-liða úrslitin hefjast í vikunni. FH-ingar fara í heimsókn til Kórdrengja á fimmtudaginn en KA tekur á móti Ægi degi fyrr, norður á Akureyri.

„Við þurfum að senda Arnar oftar upp í stúku“

Igor Bjarni KosticHeimasíða KA/Fotbolti.net

Igor Bjarni Kostic, aðstoðarþjálfari KA, stóð vaktina í kvöld ásamt Hallgrími Jónssyni í fjarveru aðalþjálfara KA, Arnari Grétarssyni, sem er í leikbanni. Þetta er ekki fyrsti leikurinn sem tvímenningarnir eru við stýrið en það átti sér líka stað í fyrri leik KA gegn FH í sumar, en þá tók að Arnar einnig út leikbann. KA vann þann leik 1-0.

Arnar er sá þjálfari í deildinni sem hefur fengið flest spjöld í sumar, alls fjögur spjöld, tvö gul og tvö rauð. Igor var því spurður af því hvort það væri eitthvað agavandamál í þjálfarateymi KA.

„Já það er nokkuð augljóst, við þurfum að senda Arnar oftar upp í stúku,“ svaraði Igor og hló.

Igor var ánægður með sigurinn, sérstaklega í ljósi svekkjandi tapleiks gegn KR í síðustu umferð.

„Ég er sáttur með þrjú stig. Það er gott að fá þau eftir tap í síðasta leik þar sem við töldum okkur eiga stigin þrjú skilið líka. Gott að vera kominn aftur á beinu brautina,“ sagði Igor.

„Við erum með hörku fótboltalið sem getur unnið leiki á marga mismunandi máta. Við þurftum ekki að hafa boltann mikið í dag en við eigum fljóta stráka fram á við sem geta klárað leiki fyrir okkur.“

Næsti leikur KA er gegn Ægi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Igor býst við sigri í þeim leik og telur liðið geta tekið margt jákvætt úr sigrinum í kvöld með sér inn í þann leik.

„Við getum tekið taktinn með okkur sem við höfum verið með undanfarið. Við búumst við sigri og við búumst við góðum leik en við þurfum samt að spila leikinn fyrst. Við verðum tilbúnir í slaginn,“ sagði Igor Bjarni Kostic, aðstoðarþjálfari KA.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.