Enski boltinn

Chelsea kaupir Chukwuemeka frá Aston Villa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carney Chukwuemeka er genginn til liðs við Chelsea.
Carney Chukwuemeka er genginn til liðs við Chelsea. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur fest kaup á hinum 18 ára miðjumanni Carney Chukwuemeka frá Aston Villa.

Chelsea greiðir 20 milljónir punda fyrir þennan efnilega leikmann og hann skrifar undir sex ára samning við félagið.

Chukwuemeka átti eitt ár eftir af samningi sínum við Aston Villa, en hann fór ekki með liðinu til Ástralíu á undirbúningstímabilinu þar sem hann neitaði að skrifa undir nýjan samning. Hann lék tólf leiki fyrir Aston Villa á seinustu leiktíð.

Chukwuemeka var ansi eftirsóttur áður en Chelsea krækti í undirskrift hans, en hann var orðaður við lið á borð við Barcelona, AC Milan og Borussia Dortmund.

Hann er fjórði leikmaðurinn sem Chelsea kaupir í sumar. Áður hafði liðið keypt Raheem Sterling frá Manchester City, Kalidou Koulibaly frá Napoli og Gabriel Slonina frá Chicago Fire, en sá síðastnefndi verður á láni hjá Chicago-liðinu út tímabilið í MLS-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×