Enski boltinn

Diogo Jota skrifaði undir nýjan samning við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diogo Jota eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við Liverpool.
Diogo Jota eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við Liverpool. Getty/Nick Taylor

Portúgalski framherjinn Diogo Jota hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Jota stimplaði sig vel inn hjá Liverpool eftir að félagið keypti hann frá Úlfunum fyrir 45 milljónir punda haustið 2020.

Hann skrifaði undir fimm ára samning þegar hann kom fyrst til Liverpool árið 2020 en hefur nú skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið.

Jota skoraði 15 mörk i 35 deildarleikjum á síðustu leiktíð en það verður einhver bið eftir fyrsta leiknum hans á þessu tímabili.

Jota meiddist í síðasta landsleik Portúgals fyrir sumarfrí og þau meiðsli tóku sig síðan upp á undirbúningstímabilinu.

„Ég er mjög stoltur verð ég að segja. Síðan ég kom fyrir tveimur árum þá hef ég náð að verða mikilvægur leikmaður í þessu liði og það var það sem ég vildi frá upphafi,“ sagði hinn 25 ára gamli Diogo Jota.

„Nú með því að skrifa undir nýjan langtíma samning þá er það augljós sönnun þess að félagið hefur trú á mér sem leikmanni. Fyrir mig sjálfan er það líka virkilega gott að koma því á hreint að ég verð ég lengi,“ sagði Jota.

Jota sagðist líka búast við því að missa af leikjum Liverpool næstu vikurnar vegna meiðslanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×