Enski boltinn

Skaut á stóru klúbbana í Englandi fyrir að vilja ekki hýsa leiki á EM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Scott starfaði fyrir BBC í kringum Evrópumótið í Englandi.
Alex Scott starfaði fyrir BBC í kringum Evrópumótið í Englandi. Getty/Alex Pantling

Það voru aðeins fjögur lið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta sem voru tilbúinn að taka við leikjum á EM kvenna í ár og hin sextán félögin fengu að heyra það frá Alex Scott eftir úrslitaleikinn.

Evrópumót kvenna í fótbolta heppnaðist frábærlega og endaði með sögulegum úrslitaleik þar sem meira en 87 þúsund manns fylltu Wembley leikvanginn og sáu ensku stelpurnar koma með bikar heim sem ekkert enskt landslið hafði náð í 56 ár.

Mótið fór fram út um allt England en það vakti þó athygli að flestir af stóru klúbbunum lánuðu ekki sína leikvanga í mótið.

Einu ensku úrvalsdeildarliðin sem hýstu mótsleiki á sínum leikvöngum voru Manchester United (Old Trafford), Southampton (St Mary’s Stadium), Brighton (Falmer Stadium) og Brentford (Community Stadium).

Fyrir vikið þurfti íslenska landsliðið að spila tvo af þremur leikjum sínum á hinum „pínulitla“ Academy Stadium í Manchester og það vakti mikla athygli þegar íslenski landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir gagnrýndi það harðlega í apríl. Eflaust hefðu mun fleiri Íslendingar mætt út ef að það hefðu verið fleiri miðar í boði á þessa tvo fyrstu leiki íslenska liðsins.

Alex Scott er fyrrum ensk landsliðskona og núverandi sjónvarpskona sem hefur líka komið sterk inn í umfjöllun um karlafótboltann í Englandi. Hún starfaði fyrir breska ríkisútvarpið á Evrópumótinu. Eftir úrslitaleikinn þá skaut Alex á ensku klúbbana sem neituðu að halda EM-leiki hjá sér.

Scott var í beinni útsendingu í miðri sigurhátíð enska landsliðsins þegar hún ákvað að láta þessa klúbba heyra það.

„Við skulum bara rifja það upp að árið 2018 vorum við að grátbiðja fólk hjá ensku úrvalsdeildarklúbbunum að leyfa okkur að spila EM leiki á þeirra völlum. Svo margir þeirra sem við töluðum við sögu nei. Ég vona að þau séu að horfa á sjálfa sig núna því þau voru ekki nógu hugrökk til að sjá sýnina okkar,“ sagði Scott.

Ákvörðunin um leikvangana var tekin árið 2018 en árið eftir héldu Frakkar frábæra heimsmeistarakeppni og þar fóru menn að gera sér betur grein fyrir því í hversu mikilli sókn kvennaknattspyrnan er. Þá voru ensku klúbbarnir hins vegar búnir að segja nei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×