Erlent

Úkraína ætlar að útvega Evrópu rafmagn

Heimir Már Pétursson skrifar
Volodymyr Zelenskyy segir að búið sé að tengja raforkukerfi Úkraínu á methraða við raforkukerfi Evrópu.
Volodymyr Zelenskyy segir að búið sé að tengja raforkukerfi Úkraínu á methraða við raforkukerfi Evrópu. AP/Efrem Blavatsky

Almenningur í Þýskalandi er byrjaður að undirbúa sig undir kaldan vetur vegna þess að Rússar hafa meira og minna skrúfað fyrir gasflutninga til landsins. Í Köln er hiti lækkaður í mörgum fjölbýlishúsum yfir nóttina til að spara gasið.

Þá hefur víða verið hætt að hita upp sundlaugar og sundlaugargestir verða að taka kalda sturtu. Rússneska orkufyrirtækið Gazprom dró enn úr gasflutningum til Evrópu í gær og afhendir nú aðeins um 20 prósent af því sem samið var um.

Volodymyr Zelenskyy Úkraínuforseti segir að verið sé að undirbúa útflutning á raforku til Evrópu.

Rússar orkufyrirtækið Gazprom hefur smátt og smátt dregið úr streymi á jarðgasi til Þýskalands og annarra Evrópuríkja. Í gær skúrfaði fyrirtækið afhendinguna niður í aðeins 20 prósent af því sem því ber að afhenda samkvæmt samningum.AP/Michael Probst

„Þrátt fyrir stríðið höfum við tryggt tengingu úkraínska orkunetsins við orkunet allrar Evrópu á mettíma. Útflutningur okkar gerir okkur ekki aðeins kleift að afla gjaldeyris heldur einnig að hjálpa félögum okkar að standast orkuþrýsting Rússa. Við munum smám saman gera Úkraínu að ábyrgðaraðila fyrir orkuöryggi Evrópu, þökk sé rafmagnsframleiðslu okkar innanlands,“ sagði forsetinn í daglegu ávarpi sínu til þjóðarinnar í gærkvöldi.

Forsetinn greindi einnig frá því að hersveitum hans hefði tekist að eyðileggja þrjár brýr í Kerson héraði og þannig stöðvað birgðaflutninga Rússa að svæðinu. Brýrnar yrðu að sjálfsögðu endurbyggðar af Úkraínumönnum eftir að þeir hefðu náð svæðinu og samnefndri borg í suðurhluta landsins á sitt vald.

'ukraínsku stórskotaliðssveitum hefur tekist að einangra rússneskar hersveitir í Kerson héraði.AP/Evgeniy Maloletka

„Hver sem áhrif Rússa eru þá munum við brjóta þau á bak aftur. Við munum frelsa landsvæði með hersveitum okkar, eftir diplómatískum leiðum og ráðum þar til við komum að löglegum landamærum Úkraínu,“ sagði Volodymir Zelenskyy.


Tengdar fréttir

Úkraínuforseti segir 40 þúsund Rússa hafa fallið í innrásinni

Úkraínuforseti segir að fjörutíu þúsund Rússneskir hermenn hafi fallið í innrásinni í Úkraínu. Her landsins hefur vaxið ásmegin eftir að hann fékk langdræg og nákvæm eldflaugakerfi frá Bandaríkjunum og Evrópuríkjum. Vonast er til að kornútflutningur geti hafist innan fárra daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×