Íslenski boltinn

Allt í blóma í Mosfellsbænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Már Einarsson er á sínu þriðja tímabili sem þjálfari Aftureldingar.
Magnús Már Einarsson er á sínu þriðja tímabili sem þjálfari Aftureldingar. vísir/vilhelm

Afturelding gerði góða ferð austur fyrir fjall og vann 1-4 sigur á Selfossi í 14. umferð Lengjudeildar karla í gær. Þetta var þriðji sigur Mosfellinga í röð en þeir eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar.

Júlí hefur verið gjöfull fyrir Aftureldingu en liðið hefur náð í þrettán stig í sex leikjum í mánuðinum. Aðeins topplið Lengjudeildarinnar, Fylkir, hefur fengið fleiri stig í mánuðinum, eða sextán. Eina liðið sem tók stig af Fylki í júlí var einmitt Afturelding.

Mosfellingar hafa heldur betur verið á skotskónum að undanförnu en í síðustu þremur leikjum, sem hafa allir verið á útivelli, hefur liðið skorað samtals þrettán mörk. Afturelding vann Vestra og Selfoss, 1-4, og Grindavík, 4-5. Spánverjinn Marciano Aziz var sérstaklega öflugur í þessum leikjum og skoraði samtals fimm mörk í þeim. Tvö þeirra komu á Selfossi í gær.

Aftureldingu hefur gengið sérlega vel á útivöllum í sumar og náð þar í þrettán af 22 stigum sínum. Aðeins Fylkir hefur fengið fleiri stig á útivelli, eða fjórtán.

Mosfellingar eru á sínu fjórða tímabili í röð í næstefstu deild. Sumurin 2019 og 2020 endaði liðið í 8. sæti og í 10. sæti með 23 stig í fyrra. Mosfellinga vantar því aðeins eitt stig til að jafna stigafjölda sinn frá því á síðasta tímabili.

Afturelding náði sínum besta árangri í sögu félagsins þegar liðið endaði í 4. sæti næstefstu deildar 2002. Mosfellingar stefna væntanlega á að bæta þann árangur í sumar.

Seinni þrír leikirnir í 14. umferð Lengjudeildarinnar fara fram í kvöld. Grindavík tekur á móti Þór, Vestri fær botnlið Þróttar V. í heimsókn og HK og Grótta eigast við í Kórnum. Með sigri komast HK-ingar aftur á topp deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×