Enski boltinn

Lingard nálgast nýliða Nottingham Forest

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nær Jesse Lingard að lífga upp á ferilinn hjá nýliðunum.
Nær Jesse Lingard að lífga upp á ferilinn hjá nýliðunum. Manchester United/Manchester United via Getty Images

Jesse Lingard, fyrrverandi sóknarmaður Manchester United, er nálægt því að samþykkja samningstilboð frá nýliðum Nottingham Forest.

Þessi 29 ára knattspyrnumaður hefur verið á mála hjá United í rúma tvo áratugi. Hann lék með yngri liðum félagsins og hefur haldið sig þar frá árinu 2000.

Samningur hans við United var ekki endurnýjaður þegar hann rann út í seinasta mánuði og Lingard hefur því verið að leita sér að nýju liði. Hann hefur verið orðaður við Everton og West Ham, en hann var á láni hjá þeim síðarnefndu seinni hluta timabilsins 2020/2021. Þar blómstraði leikmaðurinn og skoraði níu mörk í 16 leikjum.

Nú virðist Lingard hins vegar vera að ganga í raðir nýliða Nottingham Forest, en samkvæmt heimildum BBC er sá samningur ekki alveg í höfn.

Lingard var lengi vel talinn mikið efni, en ferill hans hefur ekki náð því flugi sem búist var við. Alls lék hann 149 deildarleiki fyrir United og skoraði í þeim 20 mörk. Á seinasta tímabili lék hann 22 leiki fyrir félagið, en var aðeins fjórum sinnum í byrjunarliðinu.

Þá á Lingard einnig að baki 32 leiki fyrir enska landsliðið þar sem hann hefur skorað sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×