Íslenski boltinn

Heimir hættur hjá Val

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Guðjónsson er ekki lengur þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson er ekki lengur þjálfari Vals. vísir/diego

Heimir Guðjónsson er hættur sem þjálfari karlaliðs Vals í fótbolta. Þetta kom fram í tilkynningu frá Valsmönnum nú rétt í þessu.

Valsmenn töpuðu 3-2 fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum í gær og það reyndist síðasti leikur þeirra undir stjórn Heimis. Eftir vonbrigðatímabil í fyrra þar sem Valur missti af sæti í Evrópukeppni situr liðið aðeins í 5. sæti eftir 13 umferðir í sumar, með 20 stig og nú þegar fjórtán stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

Fótboltadoktorinn Hjörvar Hafliðason segir frá því á Twitter að Ólafur Jóhannesson, sem rekinn var úr starfi sem þjálfari FH fyrr í sumar, sé mættur á Hlíðarenda og því ekki útilokað að Ólafur taki á nýjan leik við Val eftir að hafa hætt haustið 2019 þegar samningur hans við félagið var ekki endurnýjaður.

Heimir tók við Val af Ólafi eftir tímabilið 2019 og sneri þá heim til Íslands eftir að hafa stýrt HB í Færeyjum, sem hann gerði bæði að Færeyjameistara og bikarmeistara. Undir stjórn Heimis varð Valur Íslandsmeistari árið 2020.

Heimir gerði á sínum tíma samning til fjögurra ára við Val, sem þar með átti að gilda út tímabilið 2023, en nú er ljóst að hann mun ekki þjálfa liðið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×