Enski boltinn

Chelsea staðfestir komu Koulibaly

Atli Arason skrifar
Kalidou Koulibaly er orðinn leikmaður Chelsea
Kalidou Koulibaly er orðinn leikmaður Chelsea Twitter/Chelsea

Senegalski miðvörðurinn Kalidou Koulibaly er formlega orðinn leikmaður Chelsea eftir að félagið tilkynnti um komu leikmannsins frá Napoli fyrr í morgun.

Kaupverðið er sagt vera 33 milljónir punda og skrifar leikmaðurinn undir fjögurra ára samning við Chelsea sem færir honum 160 þúsund pund í vikulaun

„Ég er mjög ánægður að vera kominn til Chelsea. Þetta er stórt félag á heimsmælikvarða en það hefur alltaf verið minn draumur að spila í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Koulibaly eftir að félagaskiptin voru tilkynnt. 

Hvert einasta sumar síðustu ár hafa farið fréttir af því að Koulibaly sé á förum frá Napoli en það hefur ekki raungerst, fyrr en nú. Chelsea reyndi að frá Koulibaly til liðsins fyrir sex árum síðan.

„Chelsea nálgaðist mig árið 2016 en við náðum ekki samkomulagi. Núna samþykkti ég tilboð þeirra því ég vildi koma í úrvalsdeildina og spila fyrir Chelsea,“ sagði Koulibaly.

Þetta eru önnur félagaskipti Chelsea í sumar sem voru áður búin að kaupa Raheem Sterling frá Manchester City fyrir tæpar 50 milljónir punda. Liðið er þó ekki hætt á félagaskipta markaðinum en Chelsea er einnig að leita af öðrum miðverði eftir að bæði Antonio Rudiger og Andreas Christensen yfirgáfu London fyrr í sumar.

Meðal þeirra miðvarða sem hafa verið nefndir til sögurnar sem Chelsea á að hafa áhuga á eru Jules Kounde, leikmaður Sevilla, Matthijs de Ligt, leikmaður Juventus, Josko Gvardiol, leikmaður RB Leipzig, og Presnel Kimpembe, leikmaður PSG. Chelsea hafði einnig áhuga á Nathan Ake, leikmanni Manchester City, en þær viðræður fara ekki lengra því félögin ná ekki samkomulagi um kaupverð á leikmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×