Erlent

Segir milljón manna her munu hrekja Rússa frá suður­ströndinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld í Úkraínu hafa ítrekað gefið það til kynna undanfarna daga að umfangsmikil gagnárás sé í undirbúningi. Sérfræðingar efast um getu hersins til að hrekja Rússa aftur frá suðurströndinni á sama tíma og harðir bardagar standa yfir í austurhluta landsins.
Yfirvöld í Úkraínu hafa ítrekað gefið það til kynna undanfarna daga að umfangsmikil gagnárás sé í undirbúningi. Sérfræðingar efast um getu hersins til að hrekja Rússa aftur frá suðurströndinni á sama tíma og harðir bardagar standa yfir í austurhluta landsins. epa/Leszek Szymanski

Úkraínumenn hyggjast láta milljón manna her, vopnaðan hergögnum frá Vesturlöndum, hrekja Rússa aftur frá hernumdum svæðum landsins. Þetta segir varnarmálaráðherrann Oleksii Reznikov.

Reznikov sagði í viðtali við The Times að Bretar hefðu átt stóran þátt í þeirri stefnubreytingu Vesturlanda að hætta að sjá Úkraínumönnum aðeins fyrir vopnum frá tíma Sovétríkjanna og fara að senda þeim hergögn sem Atlantshafsbandalagsríkin nota í dag.

Hann sagði mikla þörf á að hraða vopnasendingum til landsins.

„Það eru um það bil 700 þúsund manns í hernum og þegar þú bætir við þjóðvarnarliðinu, lögreglu og landamæravörðum erum við yfir milljón,“ sagði ráðherrann. Það væri gríðarlega mikilvægt efnahag landsins að taka aftur strandlengjuna við Svartahaf.

Jack Watling, sérfræðingur við Royal United Services Institute, segir yfirlýsingu varnarmálaráðherrans þó meira heróp en raunverulega áætlun.

„Þetta eru ekki milljón manns sem munu taka þátt í gagnárás,“ sagði Watling í samtali við BBC. 

Hann ítrekar að Úkraínumenn muni ekki vilja fara hátt með raunverulegar fyrirætlanir sínar en yfirlýsingunni sé ef til vill ætlað að fá Rússa til að verja meiri mannskap í að verja svæðin.

Jonathan Beale, sérfræðingur BBC í varnarmálum, segir staðreynd málsins þá að hersveitir Úkraínu séu flestar bundnar í átökum í austurhluta landsins. Fjöldi hermanna hafi fallið á síðustu vikum og allsendis óvíst hvort Úkraínumenn hafa burði, eins og sakir standa, til að ráðast í gagnárás.

Úkraínumenn gætu lært af þeim mistökum sem Rússar gerðu í upphafi innrásarinnar; að heyja ekki stríð á of mörgum víglínum í einu.

Umfjöllun BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×