Veður

Leifar norðan­áttarinnar lifa enn við ströndina

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til fimmtán stig, heldur svalara þó norðaustanlands.
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til fimmtán stig, heldur svalara þó norðaustanlands. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir breytilega átt á landinu í dag, víðast hvar á bilinu þrír til átta metrar á sekúndu. Norðanátt hefur hrellt íbúa í norðausturfjórðungi landsins undanfarið og leifar af henni lifa enn úti við ströndina. Má reikna með norðvestan strekkingi þar þar til síðdegis.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að skýjað verði að mestu á landinu, en þurrt að kalla.

„Úrkomusvæði nálgast úr suðvestri og nær inná sunnanvert landið og því má búast við súld eða rigningu á þeim slóðum síðdegis. Hiti á bilinu 10 til 15 stig algengur, heldur svalara þó norðaustanlands.

Á morgun verður vindur með hægasta móti. Skýjað og úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi, en eitthvað gæti sést til sólar á Norður- og Austurlandi. Svipaðar hitatölur áfram. Síðdegis á morgun nálgast lægð og regnsvæði úr suðvestri og fer því að rigna vestanlands annað kvöld og aðfaranótt fimmtudags má búast við rigningu á landinu öllu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt og skýjað en úrkomulítið. Bjart með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti víða 10 til 15 stig. Fer að rigna suðvestanlands um kvöldið.

Á fimmtudag: Sunnan og síðar vestan 8-13 m/s. Víða rigning eða skúrir, en þurrt að kalla austanlands eftir hádegi. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Austfjörðum.

Á föstudag: Vestlæg átt og súld eða rigning með köflum, en yfirleitt þurrt á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á laugardag: Sunnanátt og rigning, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Á sunnudag: Suðlæg eða breytileg átt og rigning öðru hvoru með hita 10 til 14 stig, en þurrt að kalla austanlands með hita að 18 stigum.

Á mánudag: Norðlæg átt með súld eða rigningu norðanlands og kólnar, en stöku skúrir syðra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×