Umfjöllun og viðtöl: FH-Stjarnan 1-1 | Enn eitt jafntefli liðanna eftir æsilegar lokamínútur

Árni Jóhannsson skrifar
Hart var barist í leik FH og Stjörnunnar en stigunum var deilt á milli liðanna
Hart var barist í leik FH og Stjörnunnar en stigunum var deilt á milli liðanna Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

FH og Stjarnan þurfa að deila stigunum sem voru í boði í dag eftir að hafa gert jafntefli 1-1 í Kaplakrika. Leikurinn var í hægara lagi og fá færi litu dagsins ljós þangað til í uppbótartíma en Stjarnan jafnaði metin þegar lítið var eftir og bæði lið hefðu getað skorað í uppbótartíma. FH komst tvisvar í góða skyndisókn og Stjarnan skaut í stöng.

Leikurinn byrjaði ágætlega fyrir heimamenn sem komu sér í fínar stöður til að gefa boltann fyrir og uppskáru tvö fín færi en allt kom fyrir ekki. Stjörnumenn ógnuðu með hröðum sóknum en skot þeirra voru ómarkviss og markalaust var eftir fyrstu 10 mínúturnar sem voru líflegar. Eftir þær datt allur botn úr leiknum og gæði og hraði hurfu.

Logi Hrafn hefði getað skorað í byrjun leiksBára Dröfn Kristinsdóttir

Gengið var til búningsherbergja í stöðunni 0-0 og lítið meira um fyrri hálfleikinn að segja.

Svipaða sögu er að segja af seinni hálfleik lengi vel. FH skapaði sér fleiri færi en mönnum voru mjög mislagðar fæturnar og voru boltasækjarar í yfirvinnu við að ná í bolta upp við grindverk eða jafnvel út á bílastæði eftir skotin.

Það dró þó til tíðinda á 57. mínútu þegar FH-ingar fengur hornspyrnu og upp úr henni skoraði Steven Lennon. Lasse Petry tók hornið sem fór af Björn Berg Bryde og var á leiðinni aftur fyrir en Björn Daníel Sverrisson var réttur maður á réttum stað og náði að senda boltann fyrir þar sem Steven var einnig réttur maður á réttum stað í markmannsteignum og dúndraði boltanum í netið. Eftir þetta jókst krafturinn í Steven en þetta var einungis annað mark hans í sumar. 

Steven Lennon fagnar marki sínuBára Dröfn Kristinsdóttir

Kraftur leikmanna jókst líka þegar leið á leikinn og varamenn fóru að streyma inn á. Oliver Heiðarsson kom t.d. með fínan kraft inn í leik heimamanna og með smá heppni hefði hann getað skapað góð marktækifæri. FH hafði fín tök á leiknum en þegar fór að nálgast lok leiksins reyndu Stjörnumenn allt sem þeir gátu til að jafna og það tókst á 87. mínútu.

Það eru deildar meiningar með það hvort gestirnir hafi átt að fá horn á þessum tímapunkti en það var dæmt og framkvæmt. Hornspyrna var tekin og Gunnar Nielsen missti boltann að því er virtist og datt hann fyrir Adolf Daða Birgisson sem náði að taka hann niður og skjóta boltanum í autt markið nánast. Heimamenn geta verið svekktir með þetta en Stjörnumenn á móti himinlifandi.

Adolf Daði Birgisson fagnar marki sínu.

Þá fór í hönd rosalegur uppbótartími. FH komst tvisvar sinnum í gegnum vörn gestanna en snertingar á loka andartökum sóknarinnar gerðu það að verkum að ekki náðust góð skot á markið. Á hinum enda vallarins skaut Óli Valur Ómarsson í tréverkið og Eggert Aron Guðmundsson klúðraði dauðafæri. Dómarinn flautaði til leiksloka og liðin setja hvort stigið í pokann góða.

Afhverju endaði leikurinn jafn?

Bæði lið skoruðu sitt hvort markið þegar upp var staðið. Leikurinn hafi kraftleysi hjá báðum liðum og mislögðum fótum í vítateignum. Því var ágætt að fá hasar í uppbótartímanum en leikurinn í heild fær lága einkunn.

Hvað gekk illa?

Að skapa færi og nýta færin sem sköpuðust. Gæði sendinga hefur oft verið meiri og gæði skota líka.

Bestir á vellinum?

Auðvelt að benda á markaskorara eftir svona leik en það verður að tala um Daníel Laxdal í vörn Stjörnunnar. Hann kemst ágætlega frá sínum leik en annars er lítið um að ræða í þessum flokk.

Hvað næst?

Bæði lið mæta andstæðingum úr neðri helming töflunnar og eygja væntanlega von um að ná í sigur loksins en bæði hafa gert þrjú jafntefli í röð í deildinni. FH tekur á móti Fram og ef þeir ná að halda marki sínu hreinu þá er góður séns á þremur stigum. Stjarnan fer upp í Breiðholt og þó að Leiknir sé loksins búinn að ná í sigur þá hljóta Stjörnumenn að sjá þarna tækifæri á sigri.

Adolf Daði: Ég bara hugsa ekki neitt og set hann bara í markið

Hetja Stjörnumanna, Adolf Daði Birgisson, nýtti tækifærið vel þegar hann skoraði jöfnunarmark sinna manna á síðustu augnablikum leiksins í kvöld. Hann var beðinn um að lýsa markinu.

„Boltinn datt bara skemmtilega fyrir mig og ég bara hugsa ekki neitt og set hann bara í markið. Eðlishvötin tók bara yfir.“

Adolf kom inn á fyrir Daníel Finns á 58. mínútu og var hann spurður hvað Gústi þjálfari hafi sagt honum að gera til að hjálpa liðinu sínu og hvernig leikurinn hefði litið út frá hans sjónarhóli.

„Bara að halda áfram að gera það sem ég hef verið að gera. Koma inn af krafti og reyna að breyta leiknum. Þetta hafði verið dálítið „sloppy“hjá okkur, margar feilsendingar og léleg mistök. Það var pínu gæðaleysi hjá okkur.“

Stjörnumenn hafa nú gert þrjú jafntefli í röð og var Adolf spurður hvort einhverjar áhyggjur væru af stöðu mála í herbúðum Stjörnunnar.

„Nei nei, við erum rólegir og tökum einn leik í einu. Við erum ekkert að stressa okkur á þessu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira