Íslenski boltinn

Stefán Ingi skoraði fjögur er HK gekk frá Dal­vík/Reyni í seinni hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Ingi hefur verið sjóðandi heitur í undanförnum leikjum.
Stefán Ingi hefur verið sjóðandi heitur í undanförnum leikjum. HK

HK tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla með öruggum 6-0 sigri á Dalvík/Reyni í Kórnum. Staðan var markalaus í hálfleik en Lengjudeildarliðið lét gestina finna fyrir því í síðari hálfleik.

Fyrir fram var búist við öruggum sigri HK en liðið á toppi Lengjudeildar á meðan gestirnir sitja í 3. sæti 3. deildar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kviknaði heldur betur í heimamönnum. Hassan Jalloh kom þeim yfir á 49. mínútu og Örvar Eggertsson bætti við öðru marki fjórum mínútum síðar.

Stefán Ingi Sigurðarson kom svo inn af bekknum á 69. mínútu leiksins og þá má segja að gestirnir hafi stimplað sig út. Stefán Ingi skoraði sitt fyrsta mark tveimur mínútum eftir að hann kom inn á og staðan orðin 3-0.

Annað mark hans breytti stöðunni í 4-0 á 77. mínútu og hann fullkomnaði þrennuna með marki úr vítaspyrnu skömmu síðar. Það var svo einni mínútu fyrir leikslok sem hann skoraði fjórða mark sitt og sjötta mark HK.

Lokatölur 6-0, Kópavogsliðið komið áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins og gott gengi liðsins undir stjórn Ómars Inga Guðmundssonar virðist engan endi ætla að taka.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×