Erlent

Neitar að láta yfir­heyra sig nema lög­regla birti upp­tökuna

Kjartan Kjartansson skrifar
Cecilie Lilaas-Skari, aðstoðarlögreglustjóri Oslóar (t.v.), og Borge Enoksen, lögfræðingur hjá lögregluiembættinu, á blaðamannafundi um skotárásina í dag.
Cecilie Lilaas-Skari, aðstoðarlögreglustjóri Oslóar (t.v.), og Borge Enoksen, lögfræðingur hjá lögregluiembættinu, á blaðamannafundi um skotárásina í dag. Vísir/EPA

Maðurinn sem er ákærður fyrir hryðjuverk í miðborg Oslóar í fyrrinótt hefur neitað að láta yfirheyra sig nema lögregla birti upptöku af yfirheyrslunni í heild sinni opinberlega. Lögmaður hans segir hann óttast að lögreglan snúi út úr orðum sínum.

Norska lögreglan upplýsti á blaðamannafundi í dag að 42 ára gamall karlmaður sem er í haldi vegna skotárásarinnar sem kostaði tvo karlmenn lífið aðfaranótt laugardags hefði enn ekki verið yfirheyrður. Hann er sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk.

Ástæðan er sú að maðurinn neitar að leyfa lögreglu að gera mynd- og hljóðupptöku af yfirheyrslunni nema hún fallist á að birta upptökuna í heild sinni opinberlega.

John Christian Elden, lögmaður árásarmannsins, segir lögreglumenn hafi reynt að fá skjólstæðing sinn til að tala um árásina í hálftíma í dag en án árangurs. Hann hefur því ekki tekið afstöðu til sakarefnisins eða sagt nokkuð um hvað honum gekk til.

Árásin hófst fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal samkynhneigðra, aðeins nokkrum klukkustundum áður en gleðiganga átti að fara fram í borginni. Göngunni var aflýst. Tveir karlmenn, annar á sextugsaldri en hinn á sjötugsaldri, voru skotnir til bana og 21 særðist, þar af tíu alvarlega. Enginn þeirra særðu er þó í lífshættu.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur sagt frá því að árásarmaðurinn hafi verið í sambandi við þekktan íslamskan öfgamann í Noregi. Sá birti nýlega samfélagsmiðlafærslu þar sem hann hvatti til drápa á samkynhneigðum. Árásarmaðurinn sjálfur er norskur ríkisborgari en kom sem barn frá kúrdíska hluta Írans.


Tengdar fréttir

Telja árásina hryðjuverk íslamista

Norska leyniþjónustan PST lítur á skotárás sem kostaði tvö mannslíf í miðborg Oslóar í nótt sem hryðjuverk öfgafulls íslamista. Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu var hækkað í kjölfar árásarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.