Erlent

Telja árásina hryðjuverk íslamista

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk safnaðist saman til að sýna samstöðu eftir skotárásina fyrir utan bar hinsegin fólks í Osló í nótt.
Fólk safnaðist saman til að sýna samstöðu eftir skotárásina fyrir utan bar hinsegin fólks í Osló í nótt. Vísir/EPA

Norska leyniþjónustan PST lítur á skotárás sem kostaði tvö mannslíf í miðborg Oslóar í nótt sem hryðjuverk öfgafulls íslamista. Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu var hækkað í kjölfar árásarinnar.

Fjörutíu og tveggja ára gamall karlmaður er í haldi lögreglu vegna skotárásarinnar sem hófst fyrir utan skemmtistað sem er vinsæll á meðal samkynhneigðra í Osló í nótt. Hann skaut tvo til bana og særði tíu til viðbótar. Fórnarlömbin tvö eru sögð karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri.

Maðurinn er sagður norskur ríkisborgari en að hann hafi komið sem flóttamaður til Noregs frá kúrdíska hluta Írans þegar hann var barn að aldri. Hann hefur áður hlotið refsidóma fyrir líkamsárás og fíkniefnabrot.

Á blaðamannafundi í dag sagði Roger Berg, yfirmaður PST, að stofnunin hafi vitað af manninum frá árinu 2015. Óttast hafi verið að hann hefði hneigst að öfgahyggju og tengst neti öfgatrúaðra íslamista í Noregi. Fulltrúar PST hafi rætt við manninn í maí en hann hafi ekki verið talinn líklegur til að beita ofbeldi, að því er segir í frétt NRK.

Leyniþjónustan rannsakar nú hvort að árásin í nótt hafi átt sér hugmyndafræðilegar rætur og hvort að hún tengist einhverjum samtökum öfgamanna. Berg segir norska blaðinu VG að árásarmaðurinn hafi stutt málstað hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams.

Viðbúnaðar vegna hryðjuverka var færður upp á fimmta og efsta stig vegna árásarinnar.

Byrjað var að yfirheyra árásarmanninn nú um miðjan dag. Lögmaður hans segist búast við því að hann verði látinn gangast undir geðrannsókn. Lögreglan í Osló sagði í morgun að ein tilgáta sé að maðurinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Áfrýjunardómstóll sem sýknaði manninn af ákæru vegna stunguárásar árið 2000 vísaði til augljósra geðrænna vandamála hans.

Gleðigöngu sem átti að fara fram í Osló í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar í nótt, að ráðlegginum lögreglu.


Tengdar fréttir

Rann­saka skot­á­rásina í Osló sem mögu­legt hryðju­verk

Norska lögreglan segist rannsaka hvort að mannskæð skotárás við skemmtistað hinsegin fólks í miðborg Oslóar í nótt hafi verið hryðjuverkaárás. Gleðigöngu Oslóar sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar.

Árásarmaðurinn áður komist í kast við lögin

Karlmaður á fimmtugsaldri sem er sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk með skotárás í miðborg Oslóar í nótt hefur ítrekað komist í kast við lögin. Tilgáta lögreglu er að hann hafi verið knúinn áfram af hatri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.