Um­fjöllun, við­töl og myndir: KR 3-3 ÍA | Sex marka spennu­tryllir í Vestur­bænum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Skagamenn skoruðu mörkin.
Skagamenn skoruðu mörkin. Vísir/Diego

KR og ÍA skyldu jöfn, 3-3, í dramatískum leik í Vesturbæ í kvöld. KR-ingar jöfnuðu metin á 94 mínútu með sjálfsmarki frá Alex Davey. 

Leikurinn var frábær skemmtun strax frá byrjun þar sem liðin skiptust á að sækja að marki andstæðingsins. Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, varði frábærlega frá Ægi Jarli eftir tíu mínútna leik. 

Skagamenn fagna einu þriggja marka sinna.Vísir/Diego

Skagamenn skoruðu svo fyrsta mark leiksins á 15. mínútu eftir að Gísli Laxdal þegar Gísli Laxdal vann boltann af Kennie Chopart og keyri í átt að vítateig KR. Gísli renndi boltanum í hlaupið fyrir Steinar Þorsteinsson. Steinar sendi boltann þvert í teiginn á Eyþór Wöhler sem gat lítið annað en rennt honum í netið. KR-ingar voru ósáttir og hefðu viljað fá dæmda aukaspyrnu á Gísla Laxdal fyrir að setja höndina í andlit Kennie í þeirra baráttu.

Stuttu síðar vildi Steinar Þorsteinsson fá vítaspyrnu eftir viðskipti sín við Kristinn Jónsson. Helgi Mikael, dómari leiksins, taldi að svo væri ekki en eftir að hafa skoðað atvikið aftur telur undirritaður að Helgi hafi rangt fyrir sér.

Á 27. mínútu jöfnuðu KR-ingar þegar Atli Sigurjónsson sendi frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Ægi Jarli sem var aleinn inni í teig Skagamanna og skallaði boltann frábærlega í netið. Staðan jöfn eftir tæplega hálftíma leik.

Þremur mínútum síðar var Atli Sigurjónsson við það að sleppa einn í gegn þegar Oliver Stefánsson renndi sér fyrir framan hann, missti af boltanum og Atli féll í teignum. Aftur þótti dómara leiksins ekki ástæða til þess að dæma víti og aftur var undirritaður ósammála. Jafnt í hálfleik, 1-1, í fjörugum fyrri hálfleik.

Atli Sigurjónsson átti góðan leik í liði KR.Vísir/Diego

Síðari hálfleikur var ekki síðri enda byrjaði hann strax á því að KR-ingar komust yfir á 47. mínútu. Þorsteinn Már sendi þá góða sendingu í gegn af miðjunni á Atla Sigurjóns sem fór illa með Johannes Vall og snýr inn í teig ÍA áður en hann reyndi fast skot á nær stöngina sem endar í netinu.

Tíu mínútum síðar fékk Ægir Jarl frábært færi úr vítateig Skagamanna til þess að koma KR tveimur mörkum yfir en skot hans framhjá. Þá tóku gestirnir við sér og settu mikla pressu á mark KR. Þeir uppskáru erfiðið á 66. mínútu og jöfnuðu metin með marki frá Steinari Þorsteinssyni eftir góða sendingu út í teiginn frá Eyþóri Aroni Wöhler.

Skagamenn voru svo aftur á ferðinni átta mínútum síðar þegar Gísli Laxdal keyri inn í teig KR og lagði svo boltann fast fyrir markið. Eyþór Aron var fyrstur á vettvang og stýrði boltanum í netið, hans annað mark í leiknum og Skagamenn komnir yfir 3-2.

Mikil dramatík var svo þegar komið var í uppbótartíma. KR fékk aukaspyrnu á miðjum velli á 93.mínútu fyrir litlar sakir og Aron Kristófer Lárusson spyrnti henni alla leið inn í teig ÍA. Árni Snær kom út úr markinu og á sama tíma hikaði Alex Davey. 

Davey fékk boltann í höfuðið og boltinn yfir Árna Snæ og í netið. Staðan orðin 3-3. Árni Snær lá eftir með skurð í andlitinu eftir að hafa fengið högg frá Finni Tómasi sem lenti undir Alex Davey. Skagamenn kölluðu eftir því að brot yrði dæmt en Helgi Mikael, réttilega, neitaði því.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta og eftir frábæran leik skildu liðin jöfn 3-3.

Árni Snær eftir höggið.Vísir/Diego
Árni Snær fékk vænan skurð eftir jöfnunarmark KR.Vísir/Diego
KR-ingar fagna jöfnunarmarki en Atli vill boltann til að reyna sækja sigurmarkið.Vísir/Diego

Af hverju var jafntefli?

Skagamenn komust tvisvar yfir í leiknum en gerðust í bæði skiptin sekir um klaufalegan varnarleik. Sóknarleikur KR var á köflum tilviljanakenndur og Skagamenn klaufar að loka ekki betur á þá. 

Þetta endar í raun bara með jafntefli vegna þess að Alex Davey og Árni Snær lentu í samskiptaörðuleikum á 93. mínútu. Skagamenn betri í leiknum heilt yfir og hefðu þeir unnið þá hefði það verið fyllielga verðskuldað.

Hverjir voru bestir?

Ég ætla að fá að taka alla sóknarlínu Skagamanna. Kaj Leo sífellt ógnandi inn á völlinn en svo bjuggu þeir til öll mörkin Gísli Laxdal, Steinar Þorsteinsson og Eyþór Wöhler. Frábærir í dag.

Kaj Leó reynir hjólhestaspyrnu.Vísir/Diego

Atli Sigurjóns var sá eini heilt yfir í KR-liðinu sem getur farið fullkomlega sáttur heim af vellinum í kvöld enda með mark og stoðsendingu. Hann var líka allan tímann erfiður að eiga við.

Hvað mætti betur fara?

Varnarleikur KR var ekki uppá marga fiska. Grétar Snær var í basli með seinni bolta á meðan hann var inná einn djúpur á miðju. Finnur Tómas leit á köflum illa út og Kristinn Jónsson virkaði nánast bara meiddur.

Finnur Tómas var langt frá sínu besta.Vísir/Diego

Skagamenn hins vegar verða að vera klókari í því að loka svona leikjum. Það telur alltof lítið fyrir þá að vera betri en fá bara eitt stig í þeirri baráttu sem þeir eru í.

Hvað gerist næst?

Skagamenn vonandi náðu í Hvalfjarðargöng fyrir lokun þeirra kl. 22:00 en þeir eiga svo næst heimaleik við FH þriðjudaginn 21. júní næstkomandi kl. 19:15.

KR-ingar mæta á Samsungvöllinn í annað skipti eftir að hafa slegið Stjörnuna út úr bikarnum fyrr í sumar. Sá leikur hefst einnig 19:15.

Eyþór Aron Wöhler: Það er mikið þakklæti til Jóns Þórs að treysta mér

Eyþór Aron Wöhler var frábær í liði ÍA.Vísir/Diego

Eyþór Aron skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja fyrir ÍA í kvöld. Hann var svekktur að hafa ekki náð að klára stigin þrjú.

„Það er bara eitt orð og það er svekkelsi. Ég á bara ekki til fleiri orð í minni orðabók til þess að lýsa þessari tilfinningu sem ég hef núna þetta er bara heilt yfir svekkjandi. Spiluðum vel og ég hélt að við værum búnir að gera nóg en allt kemur fyrir ekki,“ sagði Eyþór.

Sóknarleikur ÍA var mun betri en oft áður og Eyþór segir það þjálfaranum að þakka eftir mikla vinnu í pásunni.

„Jón Þór er búinn að „drilla“ okkur vel í pásunni, koma kantmönnunum meira inn í leikinn og koma með fleiri krossa. Það gekk vel í þessum leik og við skorum eftir þrjá krossa. Vonandi bara heldur það áfram. Ég tek alltaf stigin þrjú frekar en mörkin. Þetta var ágætt hjá mér en svekkelsi fyrst og fremst,“ sagði Eyþór.

Eyþór Wöhler hefur verið á mála hjá ÍA í nokkur ár núna en er í fyrsta skiptið að fá traust til þess að byrja alla leiki og leiða línuna. Þakklæti er honum efst í huga.

„Það hefur bara verið geggjað að fá traustið frá Jóni Þór. Eins og ég segi í fyrsta skiptið og í þessari deild. Það er mikið þakklæti til Jóns Þórs að treysta mér og vonandi bara „delivera“ ég“ sagði Eyþór.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir

KR með gríðar­legt tak á fornu fjendunum frá Akra­nesi

Besta deild karla í fótbolta hefst að nýju í kvöld eftir dágóða pásum sökum leikja íslenska A- og U-21 árs landsliðsins. Íslands- og bikarmeistarar Víkings heimsækja Vestmannaeyjar á meðan KR tekur á móti ÍA í Vesturbænum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.