Erlent

Vonast eftir hreinum meirihluta á þingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Emmanuel Macron og Brigitte Macron á kjörstað í morgun.
Emmanuel Macron og Brigitte Macron á kjörstað í morgun. AP/Ludovic Marin

Þingkosningar fara fram í Frakklandi í dag þar sem Emmanuel Macron forseti vonar að flokkur hans í miðjubandalagi við aðra flokka nái hreinum meirihluta en er ógnað af bandalagi vinstri flokka.

Frakkar kjósa til þings í tveimur umferðum rétt eins og í forsetakosningum. Macron forseta er í mun að fylgja eftir sigri sínum í maí með sigri í þingkosningunum til að auðvelda honum að koma stefnumálum sínum áfram. Þeirra á meðal eru loforð um skattalækkanir og að eftirlaunaaldur verði almennt hækkaður úr 62 árum í 65.

Nýjustu kannanir benda hins vegar til að miðjubandalag Macrons sé ógnað af nýlega mynduðu bandalagi Vinstri grænna og Kommúnistaflokksins undir forystu Jean-Luc Mélenchon. Hann hvetur kjósendur til að kjósa bandalag sitt svo Macron neyðist til að skipa hann í embætti forsætisráðherra.

Vinstrabandalagið berst fyrir töluverðri hækkun lágmarkslauna, lækkun eftirlaunaaldurs niður í sextíu ár og frystingu á orkuverði til heimila.

Fimm hundruð sjötíu og sjö sæti eru á franska þinginu og er vinstrabandalaginu spáð 260 til 320 sætum og bandalagi miðjuflokka Macrons er spáð 260 til 320 sætum.

Franska kosningakerfið er nokkuð flókið þar sem kosið er í tveimur umferðum. Þingsætum er ekki úthlutað eftir fylgi flokka á landsvísu heldur fylgi þeirra í einstökum héruðum og fer seinni umferð þingkosninganna fram eftir viku.

Þjóðarflokkur Marine Le Pen, sem tapaði forsetakosningunum fyrir Macron í maí, vonast til að fá að minnsta kosti 15 þingmenn þegar upp er staðið. Það myndi tryggja flokkum rétt á að mynda formlegan þingflokk sem tryggði honum meiri áhrif á franska þinginu. Í þingkosningunum fyrir fimm árum fékk flokkurinn aðeins átta þingmenn kjörna.

Úrslit kosninganna gætu ráðist af lélegri kjörsókn en könnunarfyrirtæki spá því að innan við helmingur kjósenda muni mæta á kjörstað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×