Erlent

Öskugos hafið á Filippseyjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Aska og gufa risu upp frá eldfjallinu Bulusan um hádegisbilið í dag.
Aska og gufa risu upp frá eldfjallinu Bulusan um hádegisbilið í dag. AP Photo/Karlyn Dupan Hamor

Öskugos hófst á Filippseyjum í morgun í fjalli suðaustur af Maníla, höfuðborg landsins. Öskuskýið frá fjallinu nær um kílómeter upp í himininn og ösku hefur rignt yfir nærliggjandi bæi. 

Hættuástandi var lýst yfir vegna gossins af náttúruvárstofnun Filippseyja í morgun þegar aska tók að rísa upp frá eldfjallinu Bulusan í Sorsogon héraði. Samkvæmt frétt AP er hraunrennsli ekki hafið úr fjallinu þó öskuskýið liggi yfir því. 

Að sögn yfirvalda hafa engin slys á fólki orðið í tengslum við gosið. Fjórtán ferðamenn auk fjögurra leiðsögumanna voru í göngu á fjallinu þegar öskugosið hófst um hádegisbil en allir komust óhulltir til byggða. 

Bulusan er eitt virkasta eldfjall Filippseyja og nokkur skjálftavirkni mælst við fjallið að undanförnu. Síðastliðin ár hafa öskugos verið tíð í fjallinu.

Hættuástandi hefur verið lýst yfir á nærliggjandi svæðum við eldfjallið.AP Photo/Karlyn Dupan Hamor

Minnst sjö þorp í kring um fjallið hafa fundið fyrir öskufalli í dag og fólk verið hvatt til að halda sig innandyra og bera grímur fyrir vitum. Þá hafa ferðamenn verið beðnir um að aka varlega í nágrenni við fjallið. 

Yfirvöld funda nú um hvort rýma eigi nærliggjandi þorp, þá sér í lagi þungaðar konur, aldraða og börn. Utan þess svæðis sem flokkað er hættusvæði vegna eldgossins hafa íbúar suðaustur af eldfjallinu verið beðnir um að fylgjast vel með næstu daga og vera viðbúnir ef ske kynni að eldgos hefjist í fjallinu. Þá hefur einnig verið varað við aurskriðum vegna öskufallsins, en nú er mikil rigningatíð í Filippseyjum. 

Þá hafa flugmenn verið varað við því að fljúga nálægt fjallinu, sem er um 600 kílómetra suðaustur af Maníla. 


Tengdar fréttir

Eldgos hafið á Filippseyjum

Eldgos er hafið í eldfjallinu Taal á Filippseyjum sem er í um sjötíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Manila.

Gríðarlegar hamfarir á Filippseyjum

Fellibylurinni Haiyan skall á austurströnd Filippseyja á föstudaginn og olli gífurlegu manntjóni og eyðileggingu. Lík liggja á víð og dreif og hanga jafnvel úr trjám. Samband hefur enn ekki náðst við fjölda byggða og reiknað er með að fjöldi látinna muni hækka enn meira.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×