Íslenski boltinn

Harrington og Arnar Páll ráðnir þjálfarar KR

Valur Páll Eiríksson skrifar
Christopher Harrington er nýr þjálfari KR.
Christopher Harrington er nýr þjálfari KR. KR

Christopher Harrington hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá KR í fótbolta, ásamt Arnari Páli Garðarssyni. Félagið tilkynnti um ráðningu þeirra í dag.

Jóhannes Karl Sigursteinsson var þjálfari liðsins en sagði upp snemma í maí. Hann hélt þó áfram að þjálfa liðið fram til 22. maí þegar Arnar Páll tók tímabundið við liðinu ásamt Gunnari Einarssyni, sem þjálfar yngri flokka í KR.

Harrington mun nú taka við KR-liðinu ásamt Arnari Páli en Harrington var í þjálfarateymi KR í fyrra, áður en hann vann á Norðurlöndum í vetur, eftir því sem kemur fram í tilkynningu KR.

Harrington hefur nú snúið aftur í Vesturbæinn og munu þeir Arnar stýra liðinu gegn Þrótti á Meistaravöllum á þriðjudag. 

KR er nýliði í Bestu deild kvenna eftir sigur í Lengjudeildinni í fyrra. Liðið er á botni deildarinnar með þrjú stig eftir sjö leiki, en eini sigur KR vannst gegn hinum nýliðunum, Aftureldingu þann 23. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×