Erlent

Danir losa sig við undanþáguna

Samúel Karl Ólason skrifar
Danir héldu þjóðaratkvæðagreiðslu í dag sem virðist ætla að skila afgerandi niðurstöðu.
Danir héldu þjóðaratkvæðagreiðslu í dag sem virðist ætla að skila afgerandi niðurstöðu. AP/Emil Helms

Yfirgnæfandi meirihluti danskra kjósenda samþykkti í dag að leggja niður undanþáguákvæði um þátttöku ríkisins í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í dag.

Uppfært: 21:25 Kjörstaðir lokuðu klukkan sex að íslenskum tíma, átta í Danmörku, en samkvæmt útgönguspám kusu 69,1 prósent Dana að fella ákvæðið niður en 30,9 prósent vildu halda því, samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins.

Fyrstu tölur í Danmörku, þegar búið var að telja þriðjung atkvæða, sýndu að 65,4 prósent sögðu já og 34,6 nei.

Lokatölur voru svo á þann veg að 66,9 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já og vildu fella ákvæðið niður. 33,1 prósent sögðu nei.

Áður höfðu skoðanakannanir sýnt að 44 prósent Dana vildu ákvæðið burt og 28 prósent vildu halda því. Nærri því tuttugu prósent sögðust óákveðin. Tölur um kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslunni liggja ekki fyrir enn.

Danmörk hefur verið eina aðildarríki ESB sem var með undanþágu frá varnarsamstarfi sambandsins.

Danir gengu í Evrópusambandið árið 1973 en fengu fjórar undanþágur frá Maastricht-sáttmálanum árið 1992, meðal annars hvað varðar þátttöku í varnar- og myntsamstarfi.

Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir þetta skýrt merki um það að Danmörk standi með Úkraínu og öðrum bandamönnum Danmerkur í baráttunni fyrir frelsi og lýðræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×