Erlent

Mótmæli eftir mannskætt húshrun halda áfram í Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Rústir Metropol-byggingarinnar í Abadan í Íran.
Rústir Metropol-byggingarinnar í Abadan í Íran. AP/skrifstofa varaforseta Írans

Reiði ríkir enn í garð íranskra yfirvalda eftir að 37 manns fórust þegar íbúðablokk hrundi í suðvestanverðu landinu í síðustu viku. Mótmælendur hafa meðal annars hrópað slagorð gegn Ali Khamenei, æðsta leiðtoga Írans.

Yfirvöld hafa kennt spillingu embættismanna og litlum öryggiskröfum um að tíu hæða Metropol-byggingin í Abadan í Khuzestan-héraði hrundi til grunna 23. maí. Auk þeirra látnu slösuðust 37 manns.

Þrettán manns hafa verið handteknir vegna hrunsins til þessa, þar á meðal borgarstjórar og aðrir embættismenn.

Mikil öryggisgæsla var þegar minningarathafnir um fórnarlömbin voru haldnar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Myndbönd frá borginni sýndu mótmælendur kveikja í dekkjum og loka vegum í bænum Shadegan í nágrenni Abadan.

Mótmælendur telja að harmleikurinn hafi einnig átt sér stað vegna vanrækslu stjórnvalda og landlægu misferli embættismanna. Lögreglumenn hafa skotið táragasi að mótmælendunum og hleypt af byssum upp í loftið til að dreifa mannfjöldanum. Til átaka hefur jafnframt komið á milli lögreglumanna og mótmælenda.

AP-fréttastofan segir að yfirvöld hafi handtekið Arash Ghaleh-Golab, blaðamann, þegar hann fylgdist með athöfn fyrir fórnarlömb hrunsins. Lögreglumenn hafi barið hann og sparkað í hann. Óljóst sé hvort Ghaleh-Golab var að störfum þegar hann var handtekinn eða hvort hann var viðstaddur athöfnina sem almennur borgari. Hann er enn í haldi yfirvalda og hefur ekki fengið að vera í sambandi við fjölskyldu sína eða umheiminn. Engin ákæra hefur verið birt honum.

Stjórnvöld í Íran sæta nú vaxandi gagnrýni almennings vegna hækkandi matvælaverð og efnahagsþrenginga að undanförnu. Gjaldmiðill landsins tók dýfu í gær og hefur hann ekki verið veikari gagnvart Bandaríkjadollar áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×