Erlent

Aftökur sjaldan færri en fjölgaði mikið milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Íran er fólk meðal annars hengt.
Í Íran er fólk meðal annars hengt. Vísir/Getty

Kippur var í fjölda aftaka í fyrra eftir að þeim fækkaði umtalsvert í kórónuveiruheimsfaraldrinum árið 2020. Mest fjölgaði þeim í Íran og Sádi-Arabíu. Þrátt fyrir það voru sögulega fáir teknir af lífi í fyrra.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að fjölgun aftaka í fyrra sé áhyggjuefni þrátt fyrir að þær hafi ekki verið færri síðasta rúma áratuginn en síðustu tvö ár. Alls voru 579 manns teknir af lífi í átján löndum svo vitað sé til. Það var fimmtungsfjölgun á milli ára.

Mest fjölgaði aftökum í Íran . Þar voru að minnsta kosti 314 teknir af lífi í fyrra en 246 árið 2020. Í Sádi-Arabíu fjölgaði aftökum hlutfallslega meira. Þær voru 65 í fyrra, meira en tvöfalt fleiri en árið áður, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Á eftir Íran voru flestar aftökur í Egyptalandi, Írak og svo Sádi-Arabíu. Bandaríkin voru í fimmta sæti yfir flestar aftökur í fyrra með á þriðja tug aftaka. Þau eru eina vestræna ríkið á listanum.

Tölur Amnesty eru þó verulega gallaðar því samtökin hafa engin gögn um fjölda aftaka í Kína. Þar er farið með fjöldann sem mannsmorð en talið er að hann hlaupi á þúsundum á hverju ári. Eins hefur samtökunum reynst ómögulegt að staðfesta tölur frá Norður-Kóreu og Víetnam sem eru stórtæk í aftökum.

Í Íran fjölgaði aftökum meðal annars vegna þess að fimmfalt fleiri voru teknir af lífi vegna fíkniefnabrota í fyrra en árið áður. Alls voru að minnsta kosti 132 drepnir fyrir þær sakir en 32 árið 2020.

Í Sádi-Arabíu stefnir í að aftökum fjölgi enn meira á þessu ári. Fréttir bárust af því að 81 maður hefði verið tekinn af lífi þar á einum degi í mars.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.