Íslenski boltinn

Sokknum verður ekki skilað og það hlakkar ekki í Helenu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Ólafsdóttir með sokkinn fræga úr Keflavík.
Helena Ólafsdóttir með sokkinn fræga úr Keflavík. S2 Sport

Keflavíkurkonur voru á toppi Bestu deildar kvenna eftir tvær umferðir og sendu í framhaldinu Bestu mörkunum sokk. Síðan hefur liðið tapað tveimur leikjum í röð þar af á móti nýliðum Aftureldingar á heimavelli í síðasta leik.

„Nú eru komnir tveir tapleikir í röð. Er tímabært að skila sokknum aftur,“ spurði Atli Arason, blaðamaður Vísis, þegar hann ræddi við Gunnar Magnús Jónsson, þjálfara Keflavíkur, eftir 1-2 tap á móti Aftureldingu.

„Ég veit það nú ekki. Í fótboltanum þá þarf maður að gleðjast þegar það gengur vel og við gerðum það að sjálfsögðu þarna í byrjun. Það er bara eðlilegt. Ég vona að það hlakki ekki í skólasystur minni Helenu við þetta að það gangi illa hjá okkur. Nei, nei, sokknum verður ekki skilað,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson.

„Nei, ég skila honum ekki. Hann er heima meira að segja. Það hlakkar ekkert í þeirri gömlu en ég velti því fyrir mér með Keflavíkurliðið hvort að blaðran sé sprungin,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.

„Nei, ég myndi ekki segja það. Í þessum leik þurftu þær að vera að stjórna og vera með boltann en í síðustu tveimur leikjum, á móti Val og Breiðablik, þá lágu þær til baka, beittu skyndisóknum og reyndu að nýta horn og föst leikatriði. Þarna þurftu þær að stjórna og réðu ekki við það,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

Bestu mörkin ræddu leik Keflavíkur og Aftureldingar og fóru meðal annars vel yfir leik nýliðanna í Aftureldingu. Það má horfa á þá umfjöllun hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu mörkin: Frammistaða Keflavíkurliðsins og betri spilamennska AftureldingarFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.